Skálastúfur

Árni Vilhjálmsson:

 

Skálastúfur

 

Á æskuárum mínum um og fyrir aldamótin eimdi enn allmikið eftir af forneskju og hjátrú fyrri tíma.  Hver sveit átti sinn draug, sem bar sitt nafn eins og hvert annað fólk, og kenndur var við bæinn þar sem að upphaf hans var og aðal-aðsetursstaður.  Þannig var Skálastúfur kenndur við Skálar á Langanesi.

Skálar er yzti bærinn á Langanesi að sunnanverðu.  Faðir minn var fæddur á Skálum og ólst þar upp.  Þar hafði búið faðir hans, afi og langafi.  Á Skálum bjuggu foreldrar mínir fyrstu átta hjúskaparár sín, frá 1880 til 1888.

Í þá daga var jörðin talin vildarjörð, þó að nú sé hún yfirgefin og í eyði, og bar margt til þess.  Þar var auðvelt að afla matfanga, sem var raunar aðalatriðið á þeim tíma.  Vor og sumar var fiskurinn upp í fjörusteina.  Bjargið morandi og iðandi af fugli, aðallega svartfugli. Eggjatekja var mikil að vorinu, og í ágústmánuði var spikfeitur unginn veiddur í bjarginu.  Svo sagði móðir mín okkur börnunum að eitt haustið hefði verið saltaður ungi í tólf tunnum.  Hvílíkar matarbirgðir hér var um að fæða má geta sér nærri um, þegar það er athugað að hér var aðeins um skipið, eða bringuna, að ræða.  Hryggur og háls var kliptur frá og settur í súr.

Reki var mikill, og trjáviður um allar fjörur, oft meiri en svo að við það yrði ráðið að bjarga honum undan sjó.

Á sumrin voru mikil og margvísleg viðskipti við erlendar fiskiduggur, enska kúttera, franskar skonnortur, og síðast færeyska kúttera.  Hjá fiskiskútunum, sem voru tíðir gestir á Skálum, fengu Skálabændur veiðarfæri, línur og tauma, salt, skipskex, sýróp, tóbak o.fl.  Bezt þótti þeim að verzla við Fransmennina.  Hjá þeim fengu þeir hið dásamlega Pampalobrauð, þykkar ferhyrndar kökur úr úrvalshveiti, ennfremur rauðvín, koníak og dýrindis silkiklúta um hálsinn á konum og unnustum.

Öll þessi gæði gerðu Skála að einskonar heilsuverndarstöð fyrir Sauðaneshrepp og að nokkru leyti fyrir nærliggjandi hreppa.  Að Skálum voru sendir sjúklingar, sem hrjáðir voru af skyrbjúg og öðrum vaneldissjúkdómum.  Þar hresstust þeir ótrúlega fljótt á nýmetinu og góðmetinu.   Í bjarginu óx skarfakál, sem er sérstaklega auðugt af C-bætiefni.  Það var þessi sítróna í Skálabjargi sem gefin var fólki með skyrbjúg og læknaði það á augabragði.

Nú var það fleira en rekaviður sem barst upp á Skálafjörur.  Þar strönduðu fiskiskip, þar rak hvali á land, og þar rak Skálastúf á land.

Einhverju sinni er Skálamenn voru á sjó út með nesinu nálægt svokallaðri Lambeyri, sem er því sem næst miðja vega milli Skála og Fontsins, yzta oddans á nesinu, sáu þeir hvítt flykki í fjörunni, er þeir héldu vera hvalþjós.  Hafði vinnumaður afa míns orð á því að réttast væri að hirða hvalþjósina og sjóða handa kúnum.  Varð það úr að þeir réru að landi til að athuga þetta nánar.  Kom þá í ljós að þetta var ekki hvalþjós, einsog þeir höfðu haldið, heldur hluti af sjóreknu karlmannslíki, eða raunar tiltekið miðhlutinn frá mjóhrygg niður að hnésbótum.   Tóku þeir líkið í bátinn og fluttu heim í Skála.

Ekki þótti þeim Skálamönnum taka því að flytja þennan líkhluta til kirkju og koma honum fyrir í grafreit kristinna manna heldur dysjuðu hann þar við túngarðinn.  En þar skjátlaðist þeim stórlega.  Ekki hafði aðkomumaður legið lengi í gröf sinni er hann tók að gera vart við sig þar á heimilinu og gera vart við sig á undan þeim er þeir fóru á aðra bæi.  Varð hann um tíma allfrægur draugur og var nefndur Skálastúfur, svo sem áður er getið.  Alltaf var hann þó meinlaus, en smáglettinn og stríðinn við Skálamenn.  Eitt algengasta hrekkjabragð hans var það að standa í fjárhúsdyrum er láta átti inn sauðfé á kvöldi.  Vildi þá engin skepna inn ganga fyr en rekinn hafði verið vænn járnfleinn í leiði Stúfs, þá fyrst rann féð viðstöðulaust inn.

Þess þóttust menn verða varir að Stúfur fylgdi þeim Skálamönnum.  Þegar þeir fóru í kaupstað gistu þeir oft á Heiði, en þar fóru þeir jafnan um, og þar bjó þá afi minn Davíð Jónsson.  Heyrði ég svo sagt frá að fólkið á Heiði vissi jafnan fyrir komu þeirra á því að nautgripir gerðust órólegir í fjósi, öskruðu og æddu um í básum sínum.  Reyndust Skálamenn þá jafnan rétt ókomnir.

Svo sem að líkum lætur reyndu Skálamenn með öllu móti að koma Stúf af höndum sér.  Nú með því að hann var sjórekinn þótti þeim sennilegt að líkið hefði verið af skútusjómanni.  Þótti því líklegt að hann vildi hafa eitthvað það hjá sér er minnti á jarðveru hans og vistina á sjónum.  Var þá það ráð upptekið að ná í nagla úr skipsflaki á Skálafjörum og reka þá í leiði Stúfs.  Virðist honum hafa líkað þetta vel því að uppfrá því varð hans ekki vart.

Drauma-Jói sá í svefni, eða dásvefni, Skálastúf og lýsti honun nákvæmlega, birtist hann honum einsog hann hafði verið í lifenda lífi.  Lýsing Drauma-Jóa þótti sýna að hann hefði verið sjómaður á franskri fiskiduggu.

 

(Vélritað eftir handriti Árna Vilhjálmssonar – Aagot Árnad.)

Þetta erindi er til hjá Ríkisútvarpinu í flutningi ÁV.