Bónaparti

Árni Vilhjálmsson:

Bónaparti Napoleonsson

Í smásögusafni eftir Halldór Laxness skáld er meðal annarra sagna smásagan Bónaparti Napoleonsson, sem margir munu hafa lesið og kannast við.  Fyrirmynd skáldsins að sögupersónunni er mjög sérkennilegur maður, Finnbogi Finnsson, sem fæddur var að Hraunkoti í Sauðaneshreppi, og átti lengst af æfinnar heima í fæðingarsveit sinni, þegar frá eru talin nokkur ár, sem hann var á flakki innan lands og utan.  Af sveitungum sínum var hann jafnan nefndur Bóni prins, eða Bónaparti Napoleonsson.  Bónaparti Napóleonsson sá er varð til í heila Laxness er allt önnur og veigameiri persóna en fyrirmyndin, Finnbogi Finnsson frá Hraunkoti.

Finnboga Finnsson sá ég ekki fyr en einhverntíma eftir 1924, en þá var hann fyrir löngu kominn heim úr flakki sínu, og lifði rólegu og kyrrlátu lífi á gistihúsinu á Þórshöfn hjá Kristínu Jósefsdóttur frá Strandhöfn.

Þegar nú er farið eftir þjóðveginum norður Langanesstrandir til Þórshafnar liggur vegurinn ekki eins og áður var frá Finnafjarðará beint á hábungu Brekknaheiðar, heldur meðfram sjónum til Gunnólfsvíkur og síðan norður svo kallaðan Vatnadal, sem er lægð milli Gunnólfsvíkurfjalls og útenda Brekknaheiðar.  Þegar kemur norður undir miðja Brekknaheiðina eða tæplega það, má sjá enn, til vinstri handar skammt frá veginum, í dálitlum melhól, rústir eyðibýlis.  Þarna var Hraunkot, eitt af þessum örsmáu og fátæklegu heiðarbýlum.  Portbyggð baðstofa á að gizka 6×4 álnir og einhverjir smátorfkofar áfastir við hana.  Tún var ekkert, en engjar allgóðar niður undan kotinu í Vatnadalnum.

Á bernskuárum mínum bjó þar miðaldra kona, Kristín að nafni, ásamt uppkomnum syni, Finnboga Finnssyni.  Daufleg hlýtur vistin að hafa verið þarna í kotinu, enda undi Finnbogi illa hag sínum þar.  Sótti snemma á hann þunglyndi og hugsýki.  Þróuðust með honum ýmsar sjúklegar hugmyndir, sem síðan fylgdu honum allt til æfiloka.  Aðalinntak þeirra var það að hann væri tiginborinn maður, en ekki kotungssonur.  Sagðist honum sjálfum svo frá að hann væri franskur prins.  Hefðu frönsku keisarahjónin eitt sinn verið á skemtisiglingu á lystisnekkju sinni ásamt syni sínum, prinsinum Bonaparta.  Hefðu þau á þessari ferð sinni komið við á Skálum og gengið þar á land til að skoða sig um.  Var prinsinn að sjálfsögðu í för með þeim.  En nú skeði óhappið.  Út úr þokunni kom ein ferleg norn sem greip hinn unga prins og hvarf með hann inn í niðdimma þokuna, áður en keisarahjónin og fylgdarlið þeirra fengi nokkuð að gert.  Og nornin sem rændi prinsinum var engin önnur en Kristín í Hraunkoti.

Hugsýki Finnboga og sjúklegar hugmyndir hans um eðalborinn uppruna sinn, urðu til þess að hann lagði fæð, og jafnvel hatur, á kerlingu móður sína.  Fékk kerling ekkert við hann ráðið, og yfirgaf hann hana og Hraunkot að fullu og öllu.  Fyrst mun hann hafa dvalið á prestssetrinu Sauðanesi, en síðan komst hann á flakk og fór víða um.  Til Kaupmannahafnar komst hann, en hve lengi hann hefur dvalið þar er mér ekki kunnugt.  Hann var mjög hreykinn af þessari Kaupmannahafnarferð sinni, og sagði svo frá að hann hefði borðað hjá Danakóngi.  Þegar hann var spurður að því hvað hann hefði fengið að borða hjá kóngi, svaraði hann því til, að hann hefði fengið slátur og ýmislegt fleira.  Auk þess að borða með Danakonungi hlotnaðist honum sá heiður að fá að borða með Helga Englandskonungi á Raufarhöfn, en ekki heyrði ég þess getið hvaða matur hefði verið á borðum þar. 

Eftir margra ára útivist kom Finnbogi aftur til fæðingarsveitar sinnar.  Sennilegast virðist mér að hann hafi verið sendur heim, af því að hann hafi átt þar sveitfesti.  Sveitarstjórnin kom honum í fyrstu fyrir hjá bændum í sveitinni, en hann eirði illa í vistinni og var ófús til verka.  Einna lengst mun hann hafa dvalið á Eiði hjá Gunnlaugi Jónassyni bónda þar.  Að lokum var honum fengin vist á gistihúsinu á Þórshöfn, svo sem áður er frá sagt, og undi hann sér þar vel.

Bóni prins kom mér fyrir sjónir sem andlega bilaður vesalingur, fáskiptinn, óáleitinn og meinlaus.  Hann var alltaf hreinn og þokkalega til fara.  Prinstigninni gleymdi hann aldrei, eða virðuleik sínum, og viðhorf hans til manna fór mjög eftir því hvernig menn ávörpuðu hann.  Þannig dáði hann mjög síra Pál Jónsson á Svalbarði, sem sent hafði honum bréf með utanáskriftinni:  Herra prins Bónaparti Napóleonsson Þórshöfn.  Reikninga frá Örum og Wulfs verzlun vildi hann ekki kannast við af því að utanáskriftin var:  Finnbogi Finnsson Þórshöfn. 

Endalok Bóna prins urðu þau að hann týndist að vetrarlagi í hríðarveðri.  Fannst hann eigi hvernig sem leitað var.  Vorið eftir fannst lík hans inni á Brekknaheiði við smá stöðuvatn sem nefnt var Selvatn, og er rétt fyrir ofan fjallsbrúnina beint upp af Ytri-Brekkum, þar sem ég er fæddur og uppalinn.

Halldór Laxness lætur Bónaparta Napóleonsson verða úti á heimleið til Kristínar móður sinnar í Hraunkoti.  Sú hugdetta skáldsins er mjög snjöll, og jafnvel býsna sennileg.  Ef til vill hefur, er feigðin kallaði, álagahamur geðveilunnar fallið af honum.  Árin sem liðið höfðu frá því hann yfirgaf Hraunkot voru týnd og tröllum gefin, og nú var hann á heimleið til mömmu gömlu í Hraunkoti.  Að vísu er staðurinn, sem hann varð úti á ekki í línunni Þórshöfn-Hraunkot, en hafi verið hvöss norðaustanátt, sem líklegt er, gat hann hafa hrakist undan veðrinu og borið af réttri leið.

Eftir brottför Finnboga frá Hraunkoti bjó Kristín þar í nokkur ár alein.  Bústofninn var ein kýr og fáeinar kindur.  Heyjaði hún ein handa fénaði sínum, en hefur sjálfsagt fengið einhverja aðstoð hjá nágrönnunum.  Sveitarstjórnin mun einnig hafa litið til með henni og látið flytja til hennar hey og aðrar nauðsynjar.

Ég minnist þess t.d. að ég fékk eitt sinn að fara með Guðmundi bróður mínum, sem sendur var með hest og sleða út í Sauðanes til þess að færa kerlingu töðu handa kúnni.  Á Sauðanesi voru töðubaggar látnir á sleðann og fórum við síðan með ækið upp í Hraunkot og færðum kerlingu.  Hún tók okkur vel og vildi auðsjáanlega vel til okkar gera.  Man ég að hún bar fyrir okkur einhverskonar graut í allstórri skál og spæni með.  Mér virtist þetta samhræringur af baunum og skyrhræru og leitzt grautur sá heldur óhrjálegur, og vildi ekki éta hann.  En Guðmundur bróðir minn gerði honum nokkur skil fyrir kurteisis sakir.  Heldur fannst mér kerling fornfáleg og óvistlegt allt í kringum hana í baðstofukytrunni.

Það mun hafa verið sameiginlegt álit sveitarstjórnar og almennings að óviðkunnlegt og óviðurkvæmilegt væri að láta kerlingu hírast eina í kotinu langt frá öðrum bæjum.  Vildi sveitarstjórnin flytja hana til Þórshafnar, en kerling aftók og sat kyrr.

Að lokum kom þó að því að sveitarstjórnin ákvað að taka hana upp, og ákváðu yfirvöldin stefnudag til þess.  Faðir minn var beðinn að lána vinnumann með hest og sleða til fararinar, og fékk ég að fara með honum.  Þetta mun hafa verið á útmánuðum, og ágætt hestfæri var og sleðafæri.  Við héldum sem leið liggur að Hraunkoti.  Þangað kom einnig Oddur bóndi Bjarnason á Felli á Langanesströnd með hest og sleða, og svo komu lausríðandi Snæbjörn Arnljótsson verzlunarstjóri, oddviti hreppsins, og Jóhann Gunnlaugsson hreppsstjóri.  Þeir Snæbjörn og Jóhann fóru upp á baðstofuloftið til þess að semja við kerlingu, en við hinir héldum okkur undir palli á meðan.  Þar hafði kerling kúna og einhverjar kindur, sennilega hrút og gemlinga.  Ekki mun þeim höfðingjunum hafa þótt þefurinn þarna góður, því ég minnist þess að þeir reyktu ákaft báðir tveir.  Snæbjörn mun hafa setið á kassa eða kofforti, en Jóhann sat á mjög hrörlegum kjaftastól.  Var stólsetan ekki annað en nokkrir lélegir snærisspottar.  Allt í einu heyrðum við, sem niðri vorum, dynk mikinn.  Höfðu böndin í stólnum slitnað og Jóhann hreppsstjóri fallið endilangur í gólfið.  Hrósuðum við happi yfir því að hann skyldi þó ekki hafa komið ofan í gegnum sjálfan baðstofupallinn, sem var furðu hrörlegur. 

Að lokum, eftir nokkurt þóf, tókst samkomulag við kerlingu um brottflutninginn.  Flýttu þeir sér þá ofan, Snæbjörn og Jóhann, tóku hesta sína og riðu heim.  Við hinir fórum nú upp á loft til Kristínar.  Karlana langaði í kaffi, og tók vinnumaður föður míns að sér að búa það til, því hann hafði verið skútukokkur.  Kaffið var fljótlega tilbúið.  Kerling tók part af sykurtoppi undan kodda sínum.  Sá var allvelktur og ekki með sínum rétta lit, en karlarnir hirtu ekki um það, en hjuggu úr honum stykki til að hafa með kaffinu.  Svo var sjóðheitt kaffið drukkið, en ekki man ég hvort nokkurt brauð var með. 

Síðan var tekið til óspilltra málanna að búa á sleðana.  Kýrin var bundin niður á annan sleðann og búið vandlega um hana með heypokum og ábreiðum, en kerling og búslóð hennar var látin á hinn sleðann.  Kindurnar mun Oddur á Felli hafa tekið til sín í bakaleiðinni.  Ferðin til Þórshafnar gekk ágætlega.  Kristínu frá Hraunkoti var til bráðabigða komið fyrir í timburskúr, sem Örum & Wulfs verzlun átti.  Seinna var gerð handa henni torfbaðstofa og bjó hún í henni til dauðadags. 

(Vélritað eftir handriti Árna Vilhjálmssonar – Aagot Árnad.)

Þetta erindi er til hjá Ríkisútvarpinu í flutningi ÁV

Rignir blóði

Rignir blóði.

Í Lesbók Morgunblaðsins 29. okt. s.l. er athyglisverð og mjög fróðleg grein, með yfirskrift:  Rignir blóði“.  Meðal annara frásagna um blóðregn, sem þar er frá sagt, er tekin upp frásögn Eyrbyggju um blóðregnið á Fróðá fyrir Fróðárundur.  Hefur mér alltaf þótt mikið til koma þeirrar frásagnar, vegna þess hve nákvæm og trúleg lýsingin er.  Er engu líkara en að þar segi sjónarvottur frá.  Sagan er þó örugglega skráð löngu eftir að atburðurinn gerðist, og virðist höfundur sögunnar því hafa séð hann fyrir innri sjónum, líkt og Jónas sá rauðu blossamóðuna með blágráum reyk yfir, er hann orkti kvæðið Skjaldbreiður.  Í lok greinarinnar er réttilega tekið fram, að ekki geti rignt blóði, en að stundum komi rauð rigning:  „Telja menn að það stafi af því, að mikið sé í loftinu af rauðu sanddufti, sem borist hefur með vindum utan af eyðimörkum.  Þegar þetta duft blandast rigningunni, verður regnvatnið rautt á litinn“, segir í greininni.  Ekki finnst mér þessi skýring um rauða sandduftið sannfærandi, og að minnsta kosti ófullnægjandi, og ósennileg skýring á blóðregninu á Fróðá.  Þar er heldur ekki um venjulega rigningu að ræða, heldur rignir þar sjó, sem mengaður er einhverju því, sem gerir hann rauðan á litinn. 

Lítum nú svolítið nánar á frásögn eyrbyggju af atburði þessum, er varð undanfari mikilla tíðinda þar á bænum;  „Sumar var heldur óþerrisamt, enn of haustið kómu þerrar góðir.  Var þá svá komit heyverkum at Fróðá, at taða öll var slegin, enn fullþurr nær helmingrinn.  Kom þá góður þerridagr, og veður kyrrt, ok þurt, svá at hvergi sá ský á himni.  Þóroddr bóndi stóð upp snemma um morgininn ok skipaði til verks.  Tóku sumir til ekju, enn sumir hlóðu heyinu, enn bóndi skipaði konum til at þurka heyit, ok var skift verkum með þeim, ok var Þórgunnu ætlat nautafóður til atverknaðar.  Gekk mikit verk fram um daginn.  Enn er mjök leið at nóni kom skýflóki svartur á himinn norður yfir Skor, ok dró skjótt yfir himin, ok þangað beint á bæinn“  o.s.frv.

Hvers eðlis var þá þessi svarti skýflóki, sem kom upp á himin norður yfir Skor á sólbjörtum haustdegi.  Því er fljótsvarað.  Þetta hlýtur að hafa verið skýstrokkur – cyclon – sem sogið hefur upp í sig sjó hátt í loft upp, svo að hann ber yfir Skor.  Hann kemur að norðurströnd Snæfellsness rétt undan bænum á Fróðá og yfir túnið, og fellir úr sér sjóinn í flekk Þórgunnu, dettur niður er hann kemur yfir land.  Þvermál skýstrokksins má nokkkuð marka af því, að regnið kemur nálega allt, eða meginhluti þess, í flekk Þórgunnu,  „en henni var fengið eitt nautsfóður til atverknaðar“ um daginn,  segir sagan.  Ekki er gott að vita hvað þeir hafa ætlað kú til vetrarfóðurs í þá daga, en varla hefur það verið sérlega stór flekkur, sem hinni öldruðu írsku konu var ætlaður einni til atverknaðar.  Þórgunna hafði ekki hlýtt skipun húsbóndans um að raka heyið saman og setja í sátur, er skýflókinn nálgaðist.  Hennar taða lá því flöt og gegnblotnaði af regninu.  Þegar skýstrokkurinn hafði fellt úr sér sjóinn, birti fljótt aftur og þornaði til.  Allt heyið er flatt lá þornaði fljótt, nema flekkur Þórgunnu, sem ekki þornaði þá um kvöldið, að minnsta kosti.  „Ok aldrei þornaði hrífan er Þórgunna hafði haldið á“.  Skýringin á því, að hey það sem gegndrepa varð þornar seint, er fyrst og fremst sú, að hér er ekki um venjulegt rigningarvatn að ræða, heldur saltan sjó, sem þornar langt um seinna en venjulegt rigningarvatn, og það eins fyrir því þó að það væri blandað sanddufti frá eyðimörkum.  En það er ekki nægileg skýring.  Hrífa Þórgunnu þornaði aldrei, segir sagan.  Vafalaust er þetta orðum aukið.  En hún hefur þornað miklu seinna en eðlilegt þótti, annars hefði þessa ekki verið getið sérstaklega.  Til þess að skýra þetta verður maður að mynda sér einhverja skoðun um rauða litinn á sjónum, sem gerði það að verkum, að menn töldu hann vera blóð.  Sennilegasta skýringin virðist mér vera sú, að það hafi verið rauðir þörungar, sem gerðu rauða litinn. En miklar og þéttar torfur geta stundum verið í sjónum af slíkum örsmáum rauðum þörungum.  Virðist skýstrokkurinn einmitt hafa náð að soga upp í sig eina slíka stórtorfu af rauðum þörungum.  Þar með er þá líka fengin fullgild skýring á frásögn sögunnar, og að hér er ekki um hugaróra að ræða, heldur raunveruleika.  Sjór þornar seinna en vatn.  Sjór mengaður þara þornar afarseint.  Hrífan er hráblaut og slímug svo dögum skiftir.  Hún þornar aldrei.

Mig minnir að Friðþjófur Nansen segi í bók sinni På ski over Grönland frá því, að hann hafi á ferð sinni yfir Grænlandsjökul rekist á rauða flekki í snjónum, sem hann telur vera það sem í gegnum aldir hefur verið nefnt blóðregn, og mikill ótti hefur stafað af, og gefi þar þá skýringu á rauða litnum, að skýstrokkar beri inn á jökulinn sjó mengaðan rauðum þörungum.  Bók Nansens hef ég ekki við hendina, en gaman væri ef Lesbókin vildi láta huga að þessu.

                            Árni Vilhjálmsson læknir.

Ritgerð Önnu Þórdísar um Árna

Menntaskólinn á Akureyri

Haustönn 1980   

Anna Þórdís Árnadóttir 6.U.

Árni Vilhjálmsson læknir

„Árni Vilhjálmsson læknir, er fæddur á Ytri-Brekkum á Langanesi í Norður-Þingeyjarsýslu 23. júní 1894. Foreldrar hans voru Vilhjálmur Guðmundsson bóndi þar, fæddur 16. janúar 1854 og kona hans Sigríður Davíðsdóttir, bónda á Heiði á Langanesi, Jónssonar, fædd 7. júlí 1852.

Þau hjón bjuggu fyrst að Skálum, en þar hafði áður búið Guðmundur faðir Vilhjálms, og einnig afi hans og langafi, er báðir hétu Sigurður. Segja má, að Skálar hafi á þeim tíma verið heilsuverndar og birgðastöð héraðsins. Sjórinn var gjöfull, fiskur gekk nærri landi, mikill fugl var í bjarginu og auðveld og árviss hagkvæm verzlun við erlend fiskiskip, sérstaklega Frakka.“ (1)

Sigríður húsfreyja stundaði grasalækningar og hjálpaði m.a. mörgum sem þjáðust af skyrbjúg og geitum sem á þeim árum voru talsvert útbreiddir og hvimleiðir sjúkdómar. 

Árið 1893 fluttust þau Vilhjálmur og Sigríður að Ytri-Brekkum og bjuggu þar síðan búskap sinn allan.

„Árni Vilhjálmsson var yngstur af börnum þeirra Ytri-Brekknahjóna, sem á legg komust. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 26. júní 1914 og varð candidat í læknisfræði frá Háskóla Íslands 27. september 1919.“ (2)

En hvað var það sem hvatti ungan bóndason frá sæmilega efnuðu heimili og með aðstöðu til búskapar í betra lagi, til þess að leggja út á námsbraut með læknisfræði sem lokatakmark. Ekki síst þegar þess er gætt að launakjörin voru léleg og litlar líkur á að fá að loknu námi, að minnsta kosti fyrstu árin, annað en erfið útkjálkahéruð til að starfa í.  (sbr. Þ.M.: L.F.L.: 22)

Þuríður elsta systir Árna var búin að kynnast námi í kennaraskólanum og varð til þess að hvetja Árna til náms. Efni foreldranna voru ekki meiri en svo að Árni varð sjálfur að standa straum af námskostnaði sínum. Hann stundaði því sjóróðra frá Þórshöfn á sumrin.

Árni hafði mikinn áhuga á náttúrufræði sem eflaust má rekja til áhrifa frá grasalækningum móður hans. Helst hefði hann kosið að stunda náttúrufræði við Kaupmannahafnarháskóla en slíkt nám bauð ekki upp á mikla framtíðarmöguleika til starfa. Að þessu slepptu fannst honum læknisfræðin standa næst.

Haustið 1918 herjaði hin ógnverkjandi drepsótt „spánska veikin“ á íbúa Reykjavíkur. Sökum mannfæðar var Árni ásamt fleiri læknastúdentum kvaddur til þjónustu, þótt hann ætti eitt ár eftir til candidatsprófs. Hann var einn þeirra fáu lækna sem starfaði allt veikindatímabilið án þess að sýkjast sjálfur (sbr. Þ.M.: L.F.L.: 15, 16). Ekki hefur það verið létt fyrir ungan og óreyndan lækni að standa frammi fyrir þessum ógnvaldi en vafalaust ómetanleg lífsreynsla í veganesti á læknisbrautinni.

„Síðasta árið, sem Árni var við háskólann, var hann um skeið staðgengill Sigurðar læknis Kvaran á Eskifirði. Þar kynntist hann Aagot Fougner, dóttur Rolf Johansen kaupmanns á Reyðarfirði“ (3) sem var norskur og hafði ungur flust til Íslands. Hér á landi hafði hann kynnst konu sinni Christine Överland, móður Aagotar, sem einnig var norsk. Aagot og Árni gengu í hjónaband 3. júní 1920.

„Eftir að Árni hafði lokið prófi, fór hann sem staðgengill héraðslæknisins í Norðfjarðarhéraði og þjónaði þar frá því í október 1919 og fram í maí 1920.“ (4)

Síðan hélt hann til náms og starfa í Noregi ásamt Aagot konu sinni. Þá var svo lítið að gera fyrir lækna hér heima að eins var við því búist að þau settust að í Noregi. Fyrst starfaði Árni eitt og hálft ár í Haugelandssygehus í Bergen, þar af sex mánuði á farsóttadeild. Þar var lítið hugsað fyrir aðbúnaði handa eiginkonum aðkomulækna og Aagot fór því til Íslands vorið 1921, til að eignast fyrsta barnið heima á Reyðarfirði.

Í byrjun árs 1922 fór Árni á Kvindeklinik í Osló og var þar í tvo mánuði hjá hinum kunna fæðingarlækni Kristjáni Brandt. Þar vaknaði áhugi Árna á fæðingarhjálp, undir handleiðslu þessa mikla snillings sem Árni þakkaði síðar velgengni sína í aðstoð við sængurkonur sem hann varð hvað frægastur fyrir.

Árni kom heim í mars 1922 og starfaði á Eskifirði fram á sumar í fjarveru Sigurðar Kvarans læknis sem þá sat á þingi. En svo þurfti að fara að leita sér að atvinnu, því ekki lágu læknishéruðin á lausu.

Páll Kolka sem þá var í Vestmannaeyjum átti að fara í árs orlof og voru þau Árni og Aagot í Vestmannaeyjum það ár, 1922-1923. Þar fæddist annar sonur þeirra hjóna. Árna féll þar mjög vel og náði hylli almennings. Aagot leið einnig vel en undi sér þó ekki alls kostar og seinna komst hún að því að líklega hefði það stafað af einangruninni og fjarlægðinni frá „meginlandinu“.

Árni fór svo til Reykjavíkur í atvinnuleit og þann 16. Júlí 1923 var hann settur til að þjóna Flateyjarhéraði á Breiðafirði, eftir að Magnús Snæbjörnsson, sem verið hafði læknir þar, sagði af sér embætti. Ekki fannst Árna fýsilegt að flytjast þangað með fjölskylduna svo Aagot fór austur til foreldra sinna á Reyðarfirði og dvaldist þar með drengina báða um sumarið. Við komuna til Flateyjar greip Árna einangrunarkennd sem hann losnaði ekki við þótt víðátta væri mikil bæði til hafs og lands. Fólkið var vingjarnlegt en aðstaða til aðgerða annarra en lyflækninga var engin og húsnæði læknisins ónógt og ekki laust við draugagang. Flatey varð því ekki til að freista Árna til frambúðar enda var hann þar stuttan tíma. Þarna gerði hann þó þann eina barkaskurð sem hann gerði á læknisferli sínum hérlendis, þótt fleiri hafi hann gert í Noregi. Í Flatey var einnig í fyrsta skipti leitað til hans sem dýralæknis en því starfi þurfti hann síðar að gegna jafnhliða almennum lækningum á fólki.

Um haustið barst Árna bréf frá Kristjáni lækni á Seyðisfirði sem var heilsulítill og bað hann að vera hjá sér um veturinn. Það var því ráðgert að þau Aagot færu þangað í október og yrðu þar. En milli hátíða þennan vetur dó Magnús Jóhannsson héraðslæknir á Hofsóshéraði og þangað réðist Árni í mars 1924. 

Á Hofsósi fengu þau hjónin mjög góðar viðtökur og bjuggu hjá læknisekkjunni í húsi hennar. Árni þurfti að fara í læknisferðir út í Fljót og heilmikil ferðalög önnur, þótt erfitt væri yfirferðar og snjóþungt þennan vetur. Svo vel líkaði Árna og Aagot á Hofsósi að líklega hefðu þau sest þar að ef Árna hefði ekki boðist Vopnafjarðarhérað, eftir að Ingólfur Gíslason, þáverandi héraðslæknir, sagði því lausu. Þau voru bæði að austan og vildu því heldur vera þar, fyrst þau máttu velja. Árni tók því við Vopnafjarðarhéraði 1. júní 1924 og þar starfaði hann síðan nær óslitið til ársloka 1959 eða í nærri þrjátíu og sex ár. 

Aðkoman til Vopnafjarðar var fremur nöturleg og kalt var í veðri. Árni var umsvifalaust sóttur í sjúkravitjun upp í sveit en sveitungi hans kom Aagot og börnunum til aðstoðar. Hann fylgdi þeim að læknishúsinu en þar var þá allt harðlæst og lokað. Lykillinn fannst að lokum eftir langa leit. Aagot var ófrísk og illa á sig komin. Læknishúsið var ískalt og ekkert vatn var þar að finna fyrr en seint og um síðir í stoppkrana niðri í kjallara.

Í þessu húsi, sem nefnt var Vigdísarstaðir, hófst mikið og langt ævistarf þeirra hjóna og var það heimili þeirra öll árin sem þau bjuggu á Vopnafirði. Læknisbústaðurinn varð ekki einungis heimili fjölskyldunnar heldur einnig sjúkrahúsið í héraðinu, hótelið og gistiheimilið.

Norðan á húsinu var skúrbygging. Inn í hana var gengið um langan gang upp við húsið og inn í lækningastofuna sem aldrei var kölluð annað en apótekið. Þar var móttaka fyrir alla sjúklinga sem komu og þar voru allar aðgerðir framkvæmdar. Ef um meiri háttar aðgerðir var að ræða þurfti að taka sjúklinginn inn á heimilið og veita honum þar aðhlynningu.

Í apótekinu var fremur frumstæð aðstaða. Þar var t.d. ekkert rennandi vatn en vatnskanna og vaskafat stóð á borði. Skólpfata var fyrir notaða vatnið, tennur, blóð og önnur óhreinindi. Árni stóð við allar aðgerðir og bókhald því aðeins var einn stóll í apótekinu, ætlaður sjúklingi. Iðulega kallaði hann Aagot til aðstoðar og þá oftast við tanndrátt. Hún sauð einnig öll tæki og þvoði allt lín og umbúðir auk alls annars þvottar heimilisins. Árni átti mikið af tækjum til fæðingarhjálpar og einnig mikið safn tanndráttartanga og hnífa til ígerðaskurða. Annars var fátt um áhöld og tæki. Í gólfi apóteksins var hleri, þar sem gengið var niður í kjallara. Þar var geymdur ýmis matur auk lyfjaflaskna sem ekki komust fyrir í hillum og skúffum apóteksins. Inn af apótekinu hafði Aagot litla búð, útibú frá Baldwin Ryel á Akureyri, og verslaði með metravöru og annað til saumaskapar. Þar inni var legubekkur fyrir sjúklinga. Biðstofan var í bókastofu Árna. Fram til 1940 voru engir ákveðnir viðtalstímar, heldur bankaði fólk upp á þegar læknis var þörf.

Þegar Árni kom til Vopnafjarðar var byggðin dreifð út til ystu nesja og til innstu dala. Öll sín ár þar gegndi hann læknisþjónustu í Möðrudal og fór auk þess margar ferðir upp í Jökulsárhlíð og norður um Sandvíkurheiði til Bakkafjarðar og norður eftir Langanesströnd. Þar að auki gegndi hann um tíma kalli frá Hróarstunguhéraði á móti lækninum á Fljótsdalshéraði (sbr. Þ.M.: L.F.L.: 20). Auk þess þurfti hann að sinna þeim sjúklingum sem komu á strandferðaskipum og fiskiskipum að landi, þar á meðal erlendum sjómönnum. 

Fjallanáttúran var torfær og erfið yfirferðar en ferðirnar upp á fjöllin gáfu Árna tækifæri til að njóta töfra öræfanna, kyrrð þeirra og tign, sem hann dáði svo mjög. En það var ekki síður fólkið sem þarna bjó, háfjallabúarnir, sem löðuðu hann til sín. Konungar í ríki fjallanna á sólbjörtum sumardögum er börðust hatrammri baráttu við jökulauðn, einangrun og veðraham á vetrum. 

Sjálfur sagði Árni: „Hér, á mesta lægðasvæði jarðar, er veðrið sígilt umtalsefni, enda nægilega duttlungafullt og óútreiknanlegt til þess að geta verið það. Sennilega eiga líka fáar þjóðir afkomu sína jafn mikið undir sól og regni og við Íslendingar, og má því heita eðlilegt, að okkur verður svo tíðrætt um veðrið.“ (5). Árni dáði ætíð þessa hálendismanngerð, frumstæðan kjarna íslenskrar bændastéttar. Til þessa fólks voru allir velkomnir og þá ekki síst Árni læknir og fjölskylda hans. 

„Ekki var læknisþjónustan erilsöm á Fjöllum eða í Jökuldalnum. Fólkið var hraust og hert í lífsbaráttunni. Samgöngur voru strjálar og því lítil hætta á farsóttum a.m.k. að vetrinum.“ (6). En læknis var þörf á fjöllunum sem og annars staðar til að taka á móti nýjum heimsborgurum. Einhverju sinni er Árni hafði heilsað einum slíkum, laugað hann og reifað, sendi móðirin honum þakklátt bros er hann rétti henni barnið. „Hún seildist með hendinni undir koddann sinn, dró þaðan vænan hrútskylli fullan af neftóbaki og sagði: „Má ekki bjóða lækninum í nefið, hann hefur gott af því“. Að kunna að haga sér í fátæktinni, er list fyrir sig.“ (7)

Flestar frægðarsögur sem farið hafa af Árna eru án efa af snilli hans við fæðingarhjálp, enda fannst honum hann sterkastur á því sviði er verulegan vanda bar að höndum. Engu máli skipti hvernig viðraði, hve leiðin var löng eða hvernig heilsu hans sjálfs var háttað, alltaf var hann reiðubúinn til hjálpar á hvaða tíma sólarhrings sem var, enda voru mannslíf í veði. Fyrir það hlaut hann líka verðskuldað þakklæti foreldra og síðar meir þeirra barna sem hann hjálpaði í heiminn.

Oft á tíðum þurfti að taka barn með töngum, gefa mæðrunum deyfingu eða lyf til að koma sóttinni af stað, eða framkvæma uppskurð ef um fósturlát var að ræða. Einna frægastur er Árni fyrir þá aðferð sem hann notaði, og gafst vel, við að snúa börnum í móðurkviði ef sitjanda bar að. Til þess notaði hann band sem hann þræddi í gegnum giftingarhringinn sinn. Hringinn notaði hann til stýringar við að smeygja bandinu gegnum lærkrika barnsins og draga það síðan fram. 

Dálæti sængurkvenna á Árna lækni var takmarkalaust, enda átti hann einstakri velgengni að fagna í fæðingarhjálp. Mátti með sanni um hann segja: „Úr barns og móður bætti hann þraut, blessun upp því skar hann.“ (8). Það var ekki fyrr en 1945 að kona lést af barnsförum í umdæmi Árna, sú fyrsta og eina þau tuttugu og tvö ár sem hann hafði verið héraðslæknir á Vopnafirði. Má það teljast stórkostlegt, þegar þess er gætt hversu frumstæð áhöld og aðstaða var fyrir hendi á þessum árum.

Sjálf eignuðust Aagot og Árni ellefu börn og komu þeim öllum til manns.

Fleiri sögur væri hægt að segja af Árna en í sambandi við fæðingarhjálp, enda var hann læknir á öllum sviðum. T.d. gerði hann höfuðskurð á unglingi við erfiðar aðstæður og lánaðist vel. Í hans hendur komu öll meiðsli svo sem eftir voðaskot úr veiðibyssum eða árásir frá mannýgum kúm. Brunasár frá vandmeðförnum kolaeldavélum, beinbrot og öll önnur slys sem urðu í daglegu lífsstarfi og leik fólksins. En í vissum tilfellum gat sjúklingurinn viðhorf hans og andlegt ástand verið erfiðara við að fást en sú sjúkdómsmeðferð sem við kom hinu líkamlega meini einu saman.

Árni  „gat haft það til, þó að sjaldan komi það fyrir, að vera dálítið hrjúfur á manninn, sérstaklega ef honum fannst að til sín væri leitað af litlu tilefni, en það stóð ekki lengi, og áður en varði kom hlýjan fram sem honum var svo eiginleg, sérstaklega þegar alvara var á ferðum. „Það dugar ekki alltaf að segja elsku amma“, sagði hann stundum.“ (9)

Læknisstarfið krafðist mikilla ferðalaga, allt upp í hundrað ferða á ári, út fyrir kauptúnið. Árni ferðaðist ýmist á hestum eða fótgangandi. Flestar ferðirnar fór hann vegna farsótta og bólusetninga. Samfélagið var einangrað og smitun af ferðafólki eða skipverjum var því yfirleitt orsökin ef faraldur varð. 

Lekandi þekktist ekki nema hjá erlendum sjómönnum sem höfðu sýkst í löndunum við Miðjarðarhaf.

Taugaveiki lét lítið sem ekkert á sér bera, aftur á móti gekk kíghósti almennt yfir þar til skipulagðar bólusetningar hófust. Auk bólusetninga heima í apótekinu fóru þær fram á fjórum bæjum í sveitinni þar sem hentugt þótti að safna börnunum saman. Stakar aukaferðir varð þó alltaf að fara vegna þeirra sem ekki mættu eða heltust úr lestinni af einhverjum orsökum. 

Skarlatssóttarfaraldur gekk í kauptúninu 1934 og olli því að bólusetningar féllu niður það ár. 

Á fjórða áratugnum var farið að gera berklapróf á börnum og allt benti til þess að berklaveikin væri á undanhaldi. Virtist hún aðallega vera bundin við svokölluð berklahreiður þar sem foreldrar eða systkini höfðu verið berklaveik. Berklayfirlæknir kom á nokkurra ára fresti og skoðaði fólk á sóttarbæjunum og 1946 voru hafnar gegnumlýsingar á berklasjúklingum. Berklaveikt fólk var sent á Kristneshæli eða á Akureyrarspítala til uppskurðar.

Mænusótt gekk 1945 og virtust Árna hin almennu lamandi áhrif á miðtaugakerfið meiri en gert var ráð fyrir í kennslubókum. Bólusetning gegn mænuveiki hófst 1956, með mjög góðri þátttöku. 

Aðrar farsóttir, svo sem iðrakvef, blóðkreppusótt, mislingar og inflúensa voru alltaf að stinga sér niður öðru hvoru. Hvað iðrakvefið snerti var fólk ragt við að leita læknis fyrr en í óefni var komið. 

Árið 1932 barst kláði í héraðið eftir nokkurt hlé. Í þetta skiptið reyndist erfitt að uppræta hann. Mátti þar bæði kenna um óþrifnaði en einnig því að fólk viðurkenndi ekki þá skoðun læknisins að aðaluppsprettuna væri að finna á tilteknu heimili sem þyrfti að taka til sótthreinsunar. 

Þegar þrifnaður færðist í aukana varð hann á vissan hátt til þess að viðhalda kláðanum. Fyrstu einkenni hans höfðu ætíð fundist í handargreipum en aukinn handþvottur seinkaði því að kláðinn bærist í greipina, þótt hann væri til staðar annars staðar á líkamanum. Kláðinn komst því oft á hátt stig áður en fólk varð hans vart og leitaði læknis. Árið 1943 var kláði orðinn plága. Árni rakst á grein um kláða, í erlendi tímariti, sem talinn var eiga upptök sín í Englandi eða Noregi. Þótti Árna líklegast að þetta væri sama plágan og hér á landi. 

Læknir sem réðist til starfa á stað eins og Vopnafjarðarhérað, á fyrstu áratugum þessarar aldar, þurfti að vita og kunna fleira en það sem við kom læknisstörfum. Hann þurfti helst að vera „þúsund þjala smiður“ og við því búinn að til hans væri leitað sem fræði- og forgangsmanns í sameiginlegum hagsmunamálum byggðarlagsins. Það þýddi ekki að skorast undan, þá á tímum var ekki sérfræðingum til að dreifa hvar sem var. Árni læknir skoraðist heldur ekki undan, hann tók þátt í hinum ýmsu opinberu störfum og var framfara og forvígismaður um marga hluti.

Árni var í hreppsnefnd Vopnafjarðarhrepps í þrjátíu ár, 1925 – 1955, þar af oddviti í átta ár, 1925 – 1928 og 1934 – 1938, og í skattanefnd í tuttugu ár. „Hann naut alltaf mikils trausts hjá hreppsbúum. Allir virtu glöggskyggni hans og heiðarleika, þótt stundum gæti náttúrlega greint á um leiðir að markinu, eins og gengur.“ (10)

Árið 1926 voru í héraðinu, auk læknis, tvær ljósmæður, einn sótthreinsunarmaður og einn skottulæknir. Þar var enginn lyfsali, dýralæknir, tannlæknir né aðrir  sérfræðingar (sbr. Heilbrigðisskýrslur 1926 bls. 35, samdar eftir skýrslum héraðslækna að tilhlutun heilbrigðisstjórnarinnar).  Þessum störfum gegndi Árni. Lyf seldi hann úr apótekinu heima hjá sér. Tannlækningar eða öllu heldur tanndrátt og allsherjar munnhreinsun framkvæmdi hann, svo og öll önnur læknisstörf er nú krefjast sérfræðikunnáttu. Það var ekki fyrr en eftir 1933 að tannlæknar og tannsmiðir fóru að koma til Vopnafjarðar, stuttan tíma í senn. Koma þeirra var vel undirbúin, oftast með alhreinsun munna. Í skýrslu 1934 segir Árni:  „Má svo segja að hér hafi farið fram, þetta ár, stórhreingerning á þessu sviði og var að vísu full þörf á því.“ (11)

Árið 1952 tókust síðan samningar um að tannlæknir kæmi á hverju sumri til Vopnafjarðar. Sama ástand ríkti árum saman í öðrum sérgreinum læknisfræðinnar en smátt og smátt fóru háls-, nef- og eyrnalæknar ásamt augnlæknum að fylgja fordæmi tannlækna og láta sjá sig öðru hvoru.

Dýralæknir varð Árni að vera því krankfellt getur orðið meðal hinna ferfættu skepna, engu síður en þeirra er uppréttar ganga. Hann stjórnaði hundahreinsunum og sá til þess að menn fengjust í þann starfa. Hann ýmist sendi lyf eða fór í vitjanir til hinna ferfættu sjúklinga, en á þessum árum voru það helst garnaveiki, netjasullur og aðrar fjár- og hundapestir sem mest herjuðu á og ollu skaða, auk ýmissa meiðsla.

Árni kenndi alltaf heilsufræði við barnaskólann í þorpinu og einnig ensku og reikning þegar ekki fengust aðrir kennarar. Hann studdist að einhverju leyti við heilsufræði Ásgeirs Blöndal en annars fræddi hann um ýmis heilbrigðismál í fyrirlestrarformi.

Skólahúsið var í fremur lélegu ástandi og reyndi Árni mikið til að fá það bætt, sérstaklega það er varðaði hreinlæti og heilbrigði barnanna. Skólpleiðsla skólans var í mest ólagi og olli óþrifnaði kringum skólann. Baðklefi í kjallara var ónýtur sem og svo margt annað er viðhald þurfti. 

Sem læknir sá Árni um skólaskoðun og voru börnin furðanlega hraust miðað við þrifnaðarástand. Ekki þurfti einungis að berjast fyrir viðhaldi á húsakynnum skólans heldur einnig almennum skólaskoðunartækjum. Sem dæmi má nefna að engin löggilt vog virtist vera til á staðnum, ekki einu sinni í verslunum. Fallegt ástand það, en mikið þurfti til mikils að vinna. Endurbæturnar komu smátt og smátt er árin liðu.

Í bókastofunni heima hjá sér kenndi Árni einkakennslu. Ungir og efnilegir menn, sem ekki komust burtu í skóla sökum lélegra efna, komu til hans og fengu undirbúningsmenntun fyrir gagnfræða- og menntaskólanám á Akureyri.

Þegar eldri læknisbörnin komust á þennan aldur var fenginn heimiliskennari í læknishúsið. Hann kenndi öllum læknisbörnunum og þau yngri þurftu þá ekki að fara í barnaskólann. Þau sluppu því við lús og önnur óþrif sem erfitt var að uppræta í skólum og þar sem margir söfnuðust saman. Þetta var til léttis fyrir Aagot því mikið verk var að kemba svo stóran barnahóp.

Þann tíma sem Árni var héraðslæknir á Vopnafirði voru laun hans ekki meiri en svo að ekki hefði verið unnt að láta þau duga til framfæris svo margmennum hópi sem læknisfjölskyldan var. Árni hafði því ætíð nokkurn búskap. Tvær til þrjár kýr, þrjátíu til fimmtíu kindur og nokkur hænsni, auk þess að ala þurfti hesta til ferðalaga.

Þessi umsvif gerðu honum auðveldara, miðað við þeirra tíma hætti, að gegna köllun sinni sem dreifbýlislæknir. Hann lifði við meira atvinnuöryggi og þurfti því ekki að skoða læknisþjónustuna sem tillitslaust atvinnuspursmál. Árni gat því leyft sér að tefja lengur en ella er hann fór í vitjanir út um sveitina án þess að meta þær stundir til aura (sbr. Þ.M.: L.F.L.: 27).

Sjálfur sagði hann „Þá gat ég rætt við fólkið um fleira en það sem viðkom vanheilsu. Hin daglega starfsönn, sem hugur þess var bundinn í blíðu og stríðu, snerti mig ekki síður og ég gat rætt þau mál af talsverðri þekkingu og jafnvel stundum gefið á því sviði leiðbeiningar sem að gagni komu og einnnig sjálfur notið góðs af því sem mér var sagt.“ (12)

Þegar Árni var í langferðum vegna sjúkdómstilfella varð Aagot að hafa með höndum forsjá búskapar og heimilis. Er börnin uxu úr grasi, urðu þau einnig til hjálpar. Dæturnar hjálpuðu til við heimilisstörfin en synirnir fóru til fiskjar. Vinnumaður var á heimilinu er sá um búskapinn. Hann kom á læknisheimilið 1927 og fór ekki þaðan fyrr en í gröfina. 

Meðan börnin voru lítil var barnfóstra á heimilinu og oftast ein eða tvær stúlkur, Aagot til aðstoðar. Oft á tíðum voru þessar stúlkur og aðrir þeir sem komu og bjuggu í læknishúsinu um lengri eða skemmri tíma, fólk sem á einhvern hátt hafði orðið utangarðs í lífinu og átti ekki í mörg hús að venda. Ófá stúlkan kom og ól þar barn sitt og fleiri komu þangað í kaupavinnu. Þetta fólk gerðist tryggðatröll í garð læknishjónanna og vináttan entist ævilangt. Það þótti góður skóli og gott veganesti í lífinu að vera vinnukona hjá frú Aagot og í sumum fjölskyldum í þorpinu tíðkaðist það að allar dæturnar réðu sig um tíma í kaupavinnu í læknishúsið.

Á kreppuárunum kringum 1930 var afkoma manna slæm til sjávar og sveita. Fólk barðist við að halda sjálfstæði sínu og klóraði í bakkann en lítið gekk. Árni segir „Meðferð á sveitarómögum og vesalingum er hjer eftir atvikum mjög góð. Það verður að teljast fullvíst að þetta fólk hafi betur í sig og á en margir hinir sem eru að reyna að baslast við að heita sjálfstæðir.“ (13)

Hin sívaxandi kreppa og erfiðleikar atvinnuveganna varð til þess að unga fólkið og þá sérstaklega kvenfólkið, flúði úr sveit í kaupstað, þótt þar væri lítið að hafa annað en skrínukost. Enginn vildi leggja út í jafnáhættusamt fyrirtæki og búskapurinn var orðinn. Gamla fólkið varð eftir á bæjunum, skuldirnar hlóðust upp og fjöldi manns fór á sveitina eða flæmdist burt frá eignum og settist að á mölinni. Margar góðar jarðir fóru í eyði þar sem enginn hafði tök á að kaupa þær. 

Af þessu leiddi að engin mjólkursala var úr sveit í þorp. Nóg mjólk var þó í þorpinu, því margir höfðu þar lítilsháttar búskap og seldu nágrönnum sínum mjólk þótt aldrei væri um eiginlega mjólkurverslun að ræða. Þessi smábúskapur var það sem hélt lífinu í mönnum, því enga vinnu var að fá og ekki hægt að stunda sjó nema tvo til fimm mánuði á ári. Læknissynirnir fengu t.d. enga vinnu, því eingöngu heimilisfeður fengu uppbótavinnu, kannski eina viku í mánuði þegar strandferðaskip komu að landi.

Árni varð fyrstur Vopnfirðinga til að nota útlendan áburð og slá jafnvel tvisvar á sumri. Þetta tóku menn upp eftir honum og 1927 segir hann: „Menn virðast nú loksins farnir að skilja það að eina ráðið til viðreisnar smáþorpunum sje aukin ræktun.“ (14). Í kjölfar þessa hófst ræktun ýmissa garðávaxta og heppnaðist það dável. Alltof margir hristu þó í byrjun höfuðið og vildu ekki „éta gras“ eins og skepnurnar. Tóvinna jókst á heimilum sökum peningaleysis og fólk fór að búa aftur að sínu í fæði og klæðum.

Aðsókn að lækni varð með minna móti vegna fjárhagsörðugleika fólksins, því ekki var starfrækt sjúkrasamlag á Vopnafirði fyrr en 1948.

Héraðið var afskekkt og á eftir tímanum í mörgu tilliti. Getuleysi og fátækt gerði það að sumu leyti að verkum að fólk byggði ekki almennilega yfir sig en að öðru leyti þekkingarskortur á byggingarmálum, fastheldni o.fl. Fólk bjó í gömlum torfbæjum þar til þeir voru að hruni komnir. Hin fyrstu nýju timbur- og steinhús voru illa einangruð og gátu oft á tíðum varla talist gripahús, hvað þá mannabústaðir.

Böð þekktust ekki, menn þvoðu sér um kroppinn tvisvar í mánuði þegar vel lét, kvenfólkseklan átti sinn þátt í því að þrifnaður hélst í lágmarki á heimilum. Árni vildi taka á þessum þrifnaðarmálum og talaði fleirum sinnum opinberlega og brýndi fyrir fólki almennan þrifnað á skrokki og klæðum. Afturhaldssemi var eitur í hans beinum á hvaða sviði sem var. Menn skyldu drífa sig upp af eigin rammleik en ekki bíða þess að hlutirnir gerðust af sjálfu sér. Hann kom með tillögu að lýðskylduvinnu þar sem allir karlmenn á aldrinum átján til tuttugu og fimm ára yrðu skyldaðir til að vinna í þágu ríkisins, nokkra mánuði á ári. Hann sagði „Mjer finnst það liggja beint við, að við bjóðum út okkar ungu mönnum, ekki til að úthella blóði sínu fyrir föðurlandið, heldur til að hjálpa til við að útrýma hinum óhollu og ljelegu húsakynnum, byggja vegi og gera landið vistlegra og byggilegra. Það myndi aftur bæta heilsufarið, útrýma berklaveikinni og efla kjark og þrótt þjóðarinnar. Það virðist ekki nema sjálfsagt og eðlilegt, að ríkið krefjist þess af hverjum einstaklingi; að hann leggi eittthvað af mörkum, eða leggi eitthvað á sig til að bæta hag allrar þjóðarinnar. Flestar þjóðir verða að krefjast þess af þegnunum, að þeir verji landið. Við getum því einsvel krafist þess að þeir byggi upp landið.“ (15)

Um 1940 horfði til batnaðar í húsnæðismálum. Steinhús voru byggð hvert á fætur öðru og nú fyrir lán úr Byggingar og landnámssjóði og eftir þeirra teikningum. Umtalsverðar lagfæringar voru gerðar á sjúkraskýlinu sem verið hafði lítt nothæft skrifli vegna viðhaldsleysis. Farið var að leggja miðstöðvar og vatnsleiðslur, setja upp salerni og steypuböð, og rafmagnið fylgdi á eftir. Upp frá þessu fór þrifnaður allur batnandi, þó í byrjun jykist hann ekki í réttu hlutfalli við framkvæmdirnar og fínheitin. Lús og önnur óþrif virtust vera á undanhaldi en ótrúlega lengi lifði þó í gömlum glæðum.

Afkoma manna fór batnandi, nóga atvinnu var að fá við ýmsar framkvæmdir, á vertíðum og í Bretavinnunni. Fólk hafði nóg að bíta og brenna þótt ekki fengist alltaf mikið út á skömmtunarseðla stríðsáranna. Sláturgerð varð allt í einu gamaldags og hvarf í skugga sætabrauðs og sykurs. Meltingarkvillar og tannskemmdir fóru vaxandi. 1956 segir Árni: „Fáir vilja nú fylgja fordæmi Sókratesar: „Að éta til þess að lifa“. Vilja væntanlega segja eins og Þjóðverjinn „Wozu bin ich ein reicher Mann, wenn ich leben soll wie ein Hund.““ (16)

Velmeguninni fylgdi alls konar andleg og líkamleg menningarkröm sem kölluð var vítamínsskortur. Um hann hafði Árni það eitt að segja „að þar er eitthvert gat í reikninginn. Annað hvort er allt þetta skraf um vítamínskort helber ímyndun og vitleysa eða þá að vítamínlyfin frá verksmiðjunum, sem fólk étur nú eins og mat, eru algjörlega ónýt og gagnslaus. Ég hef séð góðan árangur af B1 vítamíngjöf við taugagigt og afleiðingum hennar, en annars get ég ekki sagt að ég hafi nokkru sinni séð augljósan og óyggjandi árangur af öllu þessu pilluáti og sprautustandi. Það er tískufyrirbrigði, sem einn étur eftir öðrum gagnrýnislaust.“ (17)

Árna fannst hin sjúka samtíð alvarlegt íhugunarefni fyrir læknastéttina og vitnar í vísu Kristjáns Jónssonar Fjallaskálds. „Hvað er líf manna? – Háski, böl, höfuðverkur og iðrakvöl, tannpína, tóbaksleysi. Galskrekkur, teppa, timburmenn, takstingur, vífni og fleira enn. Fátt trúi ég rönd við reisi.“ (18)

Vítamínátið dugði þó ekki til að friða órólegar sálir og sætta þær við heiminn og lífskjörin. Menn létu sér í augum vaxa það sem áður voru taldir smámunir. Lýsingarorð þóttu Árna notuð úr hófi fram og gera sér erfitt fyrir að átta sig á því hvað amaði að sjúklingum er notuðu hástig þar sem nægt hefði frumstig. „Skeytingarleysi um íslenska tungu og hvers konar hundavaðsháttur var eitur í hans beinum.“ (19) Hann lagði mikla áherslu á að orðtök væru rétt með farin og rakti mörg forn örnefni til uppruna síns. „Árni var mjög vel að sér í Íslendingasögum og öðrum fornum fræðum íslenzkum. Langa kafla í Njálssögu kunni hann utanbókar.“ (20)

Kringum 1950 gekk hálfgerð hengingartíska í Vopnafjarðarhéraði. Þetta var þunglyndi eða hugsýki sem hrjáði ólíklegasta fólk í góðum efnum en átti ekkert skylt við kreppu eða stríð. Í öllum tilvikum voru þetta karlmenn sem gáfust upp á lífinu af litlu eða engu tilefni er séð varð. Menn þessir völdu yfirleitt hlöður sem hengingarstað og settu gjarnan miða á hurðina utanverða sem á stóð „Hér á læknir fyrstur að koma.“ Það varð því hlutskipti Árna að taka hangana niður, enda fýsti víst engan að hafa þann starfa. Einhverju sinni harmaði Árni að ekki hafði farið fram mannskaðarannsókn og skrifar: „Hefði ég auðveldlega getað hlutazt til um að hún færi fram, ef mér hefði komið hún til hugar. Hinsvegar hefði neitun mín á dánarvottorði ekki leitt til mannskaðarannsóknar af þeirri ástæðu að prófastur okkar getur sjaldan munað að hann eigi að krefjast dánarvottorðs áður en hann jarðar lík. Fæ ég ekki rönd við reist þeirri gleymsku hans þó að ég hafi oft minnt hann á að svona eigi það nú að vera samkv. lögum landsins. Ég held að óhætt sé að treysta því að hinir dauðu séu dauðir, enda koma flest líkin fyrir læknissjónir. Mér verður hugsað til Máranna í Casablanca, sem fannst það óþarfa slettirekuskapur af hvíta manninum að vilja forvitnast um hvort ekki leyndist líf með líkinu, sem þeir voru að færa til greftrunar og voru búnir að greiða fyrir tilskilin gjöld. Læknirinn úrskurðaði hann dauðan, sögðu þeir og þá var hann auðvitað dauður og átti að jarðsetjast.“ (21)

Þessi dánarvottorðságreiningur varð ekki til að spilla vinskap Árna og prestsins. Þeir voru miklir vinir öll árin sem þeir störfuðu saman á Vopnafirði. Árni var mikill söngmaður og mætti við hverja messu og söng með kirkjukórnum. Hversu trúaður hann var veit ég ekki.

Illt var til ráða ef Árni veiktist eða meiddist sjálfur. Til einskis var þá að leita nema Aagotar því ætíð var hörgull á hjúkrunarkonum og enginn annar læknir nálægur. Einhverju sinni fékk Árni ígerð í lófa og risti Aagot í hann því ekki lét Árni sér detta í hug að hrekja lækni úr næsta héraði svo langa og erfiða leið. 

Um þriggja ára skeið var Árni illa haldinn af ristilkveisu sem einkum gerði vart við sig eftir ferðalög á höstum hestum. Við þetta bættust svo einkenni frá maga og loks áköf gallkveisa. Við rannsókn í Reykjavík kom í ljós að rúmlega hnefastór, kalkaður, lifrarsullur var samvaxinn við gallblöðru, ristil og skeifugörn. Árni lagðist inn á Landspítalann og var skorinn upp í júlí 1939. (sbr. Á.V.: Ársskýrsla Vopn. 1939: 3). Árni hafði lengi veigrað sér við því að leita læknis, heldur hélt sér gangandi á ströngum matarkúr. Þótti heimilisfólkinu erfitt að horfa upp á lækninn lifa á slíkri sultarfæðu er aðrir sátu að fínum mat. En sérhlífni var nokkuð sem Árni þekkti ekki og ekki lágu aðstoðarlæknar á lausu. 

Það hafði lengi verið Árna áhyggjuefni að komast ekki að heiman til að lyfta sér upp, skrafa við starfsbræður og kynnast nýjungum á sviði læknisfræðinnar. Heimilisástæður, erfiðleikar á því að fá aðstoðarlækni, fjárskortur o.fl. ollu því að honum var óhægur heimangangur. En upp úr þessum langvarandi veikindum lét hann til skarar skríða og kom sér í gistivist á Landspítalann um skeið og fylgdist með störfum hand- og lyflækningadeildar, kynntist starfsbræðrum og vinnubrögðum þeirra. Veikindi gerðu honum þó erfitt fyrir og rúmfastur var hann í rúman mánuð. (sbr. Á.V.: Ársskýrslu Vopn. 1934: 11)

Í lok ársins 1959 sagði Árni starfi sínu lausu sem héraðslæknir á Vopnafirði. Þau hjónin fluttust þá til Reykjavíkur og settust að í Barmahlíð 21. Árni starfaði hjá Tryggingastofnun ríkisins í Reykjavík, við endurskoðun og skýrslugerð, auk þess sem hann leysti lækna af úti á landsbyggðinni. 

Barmahlíðin varð heimili afa og ömmu, yngstu meðlimir fjölskyldunnar voru ekki síst tíðir gestir, og eru enn, auk allra þeirra skyldmenna og vina sem koma í heimsókn. Árni hafði ætíð mikið uppáhald á börnum og hafði unun af að fylgjast með þroska þeirra. Börnin héldu engu minna upp á afa og drógust að honum eins og segull. Í Barmahlíðina er gott að koma og þar er aldrei gestalaust frekar en í læknishúsinu á Vopnafirði. Árni var og Aagot er ekki síður jákvæð persóna sem viðurkennir breytingar kynslóðanna og tekur þátt í áhugamálum og breyttum skoðunum ungu kynslóðarinnar sem tekur við. 

Sín síðustu ár átti Árni við veikindi að stríða sem enduðu með sjúkrahúsvist á Landspítalanum. Ánægður og saddur lífdaga og að eigin ósk gekk hann á vit feðra sinna 9. apríl 1977. Bálför hans fór fram frá Háteigskirkju 15. sama mánaðar. 

EFTIRMÁLI

Svona ritgerð hlýtur að verða hrós um þann sem skrifað er. Ekki síst vegna þess að Árni Vilhjálmsson var afi minn og mínir helstu heimildarmenn voru honum nátengdir. En þrátt fyrir það held ég að hann eigi þetta hrós skilið og vandfundinn sá maður sem gæti hallmælt honum.

Læknisfjölskyldan var betur stæð en margar aðrar á árunum á Vopnafirði. En Árni og Aagot miðluðu af sínu og voru þakklát fyrir að vera í þeirri aðstöðu að geta rétt fram hjálparhönd.

Í hinu fjölbreytta starfi sínu hlaut Árni að kynnast fólkinu í kringum sig nokkuð náið. Allir þekktu Árna lækni en fáir þó inn að beini. Árni var dulur að eðlisfari og ekki gefinn fyrir að opna hug sinn fyrir hverjum sem var. Þetta hefur gert mér erfiðara fyrir að afla mér góðrar lýsingar á Árna. Allir virðast hafa dáð hann og virt en þó úr nokkurri fjarlægð.

Ég finn þessa sömu tilfinningu þegar ég hugsa til hinna stuttu kynna okkar afa. Í byrjun voru það endalausar Búkollusögur og ævintýri, „köttur út í mýri setti upp á sér stýri“ og vísan, „buxur, vesti, brók, og skó“ sem heilluðu mig á afa hnjám, og það að afi skyldi kunna að prjóna eins og amma. Síðar vaknaði forvitni mín á manninum sjálfum eftir að hafa heyrt Vopnafjarðarsögurnar hjá ömmu og pabba en ég varð of sein og fékk aldrei að heyra þær af afa vörum. Er ég stækkaði fór ég að bera mikla virðingu fyrir gamla manninum með prjónana, en mest langaði mig þó að setjast í fang hans og heyra söguna af Búkollu einu sinni enn.

Eftir að hafa lesið skýrslur afa, finnst mér ég þekkja hann betur en áður. Stundum er eins og hann gleymi sér. Skoðanir hans á umhverfinu og lífinu í kring detta á pappírinn eins og hann sé að rabba við sjálfan sig fremur en að skrifa skýrslu til landlæknis. Þess vegna valdi ég þá aðferð að vitna nokkrum sinnum í hans eigin orð, ef þau mættu lýsa honum best. 

TILVITNANASKRÁ

 1. Þorsteinn Matthíasson: Leifturmyndir frá læknadögum: 13
 2. Sama heimild: 14
 3. Sama heimild: 15
 4. Sama heimild: 16
 5. Árni Vilhjálmsson: Ársskýrsla 1953: 1
 6. Þorsteinn Matthíasson: Leifturmyndir frá læknadögum: 29
 7. Sama heimild: 22
 8. Sveinn Benediktsson: Morgunblaðið 19. apríl 1977: 38
 9. Friðrik Sigurjónsson: Morgunblaðið 19. Apríl 1977: 31
 10. Sama heimild: 31
 11. Árni Vilhjálmsson: Ársskýrsla 1934: 4
 12. Þorsteinn Matthíasson: Leifturmyndir frá læknadögum: 27
 13. Árni Vilhjálmsson: Ársskýrsla 1927: 7
 14. Sama heimild: 9
 15. Árni Vilhjálmsson: Ársskýrsla 1928: 8
 16. Árni Vilhjálmsson: Ársskýrsla 1956: 3
 17. Árni Vilhjálmsson: Ársskýrsla 1949: 3 og 4
 18. Árni Vilhjálmsson: Ársskýrsla 1948: 3
 19. Sveinn Benediktsson: Morgunblaðið 19. apríl 1977: 38
 20. Sveinn Benediktsson: Morgunblaðið 19. apríl 1977: 38
 21. Árni Vilhjálmsson: Ársskýrsla 1954: 2

SKAMMSTAFANIR

Þ.M.    Þorsteinn Matthíasson

L.F.L.    Leifturmyndir frá læknadögum

L.B.    Lárus Blöndal

V.J.    Vilmundur Jónsson

L.Á.Í.    Læknar á Íslandi

Á.V.    Árni Vilhjálmsson

Nokkur líffæraheiti

Árni Vilhjálmsson, læknir:

Nokkur líffæraheiti (nýyrði), kynfræðsla, klám

„Bræður mun berjast og að bönum verðast, munu systrungar sifjum spilla.  Hart er í heimi, hórdómur mikill, skeggöld, skálmöld, skildir eru klofnir, vindöld, vargöld, áður veröld steypist, mun engi maður öðrum þyrma.“

Svo segir í Völuspá.  Athyglisvert er hve völvan leggur mikla áherzlu á siðleysið, og hve hættulegt það sé.  Bræðravíg, sifjaspell og hórdómur er það fyrsta, sem hún nefnir. Síðan koma ófriður og styrjaldir – skeggöld, skálmöld – og loks hallæri – vindöld, vargöld – stórviðri og snjóalög svo mikil, að úlfarnir (vargurinn) ryðjast ofan í byggð til að leita sér að æti.

Nú er með mestu menningarþjóðum runnin upp ný siðferðisóöld.  Klámrit eru að verða uppáhaldslesning ungu kynslóðarinnar.  Kynmök eru talin svo sjálfsögð, að þau heita bara „að sofa hjá“.  Klámkvikmyndir, þar sem náttúrulausir kynvillingar eru látnir skaka sig utan í og á skækjum og öðrum léttúðardrósum, gegn ríflegri greiðslu, eru sýndar jafnt fullorðnum sem unglingum og taldar mikilsverð fræðsla og nauðsynleg.  Á þeim er hægt að græða milljónir.  Þar liggur hundurinn grafinn.

Menn segja, að fræðsla um kynferðismál þurfi að komast á í skólum.  Þetta er alveg rétt.  Það þarf að fræða unglingana um kynferðismál og getnað af hispursleysi, en með varúð og kunnáttu.  Það er ekki stætt á því lengur að segja börnunum, að storkurinn hafi komið með barnið, sem móðir þeirra fæddi í gær.  Í sveitum landsins fá börn og unglingar sjálfkrafa fræðslu um kynferðismál.  Þau sjá húsdýrin eðla sig og horfa á þegar kálfurinn og lambið fæðast.  Sjá að kálfurinn kemur út um burðarlið (rauf) kýrinnar og vita, að hann kemur úr kviði móðurinnar.  Börn í kaupstöðum og borgum fá litla vitneskju hér um, nema þá helst þau sem dvelja í sveitum á sumrin.

Þegar ég var læknir á Vopnafirði kom ég ásamt nokkrum öðrum áhugamönnum á stofn unglingaskóla.  Kenndi ég þar tungumál, reikning og heilsufræði.  Í þessum unglingaskóla hélt ég uppi fræðslu um kynferðismál í sambandi við heilsufræðina.  Fræddi unglingana um kynfæri karla og kvenna, eðlunina og frjóvgunina og þróun fóstursins í leginu, svo og um fæðingu afkvæmisins.  Mér virtust unglingarnir kunna að meta þessa fræðslu og vera mér þakklátir fyrir hana.

Við þessa kynfræðslu rak ég mig á það, að töluvert vantaði á að reglulega góð nöfn væru til yfir suma hluta kynfæranna.  Þetta sama hefur komið fram í vetur í hinum miklu deilum og skrifum um klám og klámmyndir.

Ég vil nú reyna að gera þessu nokkur skil og koma á framfæri nokkrum nýyrðum í sambandi við kynfærin.  Kynfæri konunnar eru öll innbyggð, vel falin og vandlega varin í grindarholinu.  Þegar litið er á nakta konu er ekki annað að sjá milli fóta henni en skaphárin.  Þegar skaphárin hafa verið rökuð af konunni, svo sem gert er við fæðingu og aðgerðir á kynfærum hennar, líkist hún mest líkneski af konu eða „ginu“.  Þó getur þarna að líta rifu eða glufu milli þykkra húðfellinga.  Þarna er fæðingaropið.  Ég legg til að glufan ásamt fæðingaropinu sé kölluð rauf.  (Rauf 1. Op, gat.  2. Rifa, glufa, sjá orðabók Menningarsjóðs).  Barmarnir beggja vegna glufunnar raufarbarmar – labia majora -.  Holið innan raufarbarmanna raufarhol – vulva -.  Slímhúðarfellingarnar í raufarholinu – raufarholsbarmar – labia minora -.  Inn í raufarholið opnast leggöngin að aftan, en lítið eitt framar þvagrásin.  Nokkru framar, millli raufarholsbarmanna, er smálíffæri, clitoris, sem svarar til sinar karlmannsins.  Þetta líffæri vil ég nefna örsin – mikro penis. – Líffæri þetta er þýðingarmikið fyrir konuna við samfarir, því að nægileg erting á því er afgerandi um það, hvort konan fær fullnægju við samfarir eða ekki.  Um önnur líffæraheiti þarf ekki að ræða.  Þar eru ágæt og rótgróin heiti svo sem:  Leggöng – vagina -, leg – uterus –, eggjastokkar og eggjakerfi.  Oft heyri ég konur tala um móðurlíf.  Þessi leiðinlega dönskusletta (livmor) á að hverfa með öllu, hún þjónar engum tilgangi.  Orðið leg er stutt og laggott og þjált í samtengingum svo sem:  Leggöng, legháls, legbolur, leghol.

Kynfæri karlmannsins eru útbyggð, óvarin og ákaflega viðkvæm, sérstaklega eistun.  Að sparka í klof á karlmanni er hið mesta fantabragð og óhæfa.  Hitti sparkið eistun fær maðurinn lost, jafnvel banvænt lost.  Nöfn á kynfærum karla, öðrum en getnaðarlimnum, eru rótgróin í málinu og óaðfinnanleg, svo sem pungur, eistu, sæðisgangur, sæðisblöðrur.  Um getnaðarlim karlmannsins – penis  – er það að segja, að nafnið á honum er mjög á reiki.  Mæður smádrengja nota orðið „tilli“ og getur það vel gengið.  Orðið „tittlingur“ fellur mér ekki.  Í orðabók Guðmundar Hannessonar er orðið „reður“, það fellur mér ekki.  Ég legg til að getnaðarlimur karla sé kallaður sin. Orðið er stutt og laggott og bændur nota það um getnaðarlim húsdýra sinna.

Að lokum nokkur aðvörunarorð til unga fólksins.  Hið „ljúfa líf“, lauslætið, er ekki eins eftirsóknarvert og ætla mætti í fljótu bragði.  Því fylgir mikil áhætta, sjúkdómar og vonbrigði.  Ein þokkaleg og vel hirt kona ætti að nægja hverjum karlmanni.

Kynsjúkdómar hafa færzt í aukana á Norðurlöndum síðustu árin, sérstaklega lekandi.  Lekandasýklarnir hafa skotið vísindamönnum og læknum ref fyrir rass.  Hefur þeim tekist að brynja sig gegn lyfjum, sem á þeim hafa unnið til skamms tíma.  Lekandinn á Grænlandi er orðinn þar ólæknandi og hafa Danir af því þungar áhyggjur.  Sama vandræðaástand mun skapast á Norðurlöndum, ef vísindamönnum tekst ekki fljótlega að finna upp ný lyf, sem unnið geta á þessu illþýði.  Lekandi er hvimleiður og bráðsmitandi kynsjúkdómur.  Smitun verður við samfarir – coitus -.  Á karlmönnum veldur hann bráðri bólgu í þvagrásinni, tíðum og ákaflega sárum þvaglátum.  Eitt af eldri skáldunum okkar lýsti þessum mikla sársauka við þvaglát svo:  „að það væri eins og að míga rakhnífum.“  Karlmenn neyðast því til að leita læknis jafnskjótt og sjúkdómurinn gerir vart við sig.  Um konur gegnir öðru máli.  Hjá þeim veldur sjukdómurinn ekki jafn miklum og óbærilegum þrautum og hjá karlmönnum.  Þær geta því gengið með sjúkdóminn langtímum saman án þess að leita til læknis.  Að sjálfsögðu eru þær smitandi þar til lækning hefur farið fram og smita hvern karlmann, sem hefur samfarir við þær, nema þá að karlmennirnir séu svo hyggnir að nota verjur – smokk – við athöfnina.  Leiti konan ekki læknis berst bólgan frá raufarholi upp leggöng, gegnum leg og eggjastokka alla leið upp í kviðarhol, veldur lífhimnubólgu og margs konar óþægindum.  Konur geta auk annars orðið óbyrjur af þessum sökum.

Um hinn margþætta og hættulega kynsjúkdóm,  sárasótt – syphilis – er ekki tími til að ræða hér.

(Birtist í Mbl. 13. febrúar 1971)

Hlíðar-Gunna

Árni Vilhjálmsson:

Hlíðar-Gunna

Fyrir löngu síðan bjó í Hlíð á Langanesi bóndi er Torfi hét.  Hann var hreppsstjóri í Sauðaneshreppi og einn helzti fyrirmaður sveitar sinnar.  Eins og þá var venja annaðist Torfi málefni sveitar sinnar, þar á meðal umsjá og ráðstöfun á sveitarómögum.  Þannig hafði hann komið fyrir sveitarómaga nokkrum til framfærslu hjá hjónunum í Tunguseli, sem nú er innsti bærinn í Sauðaneshreppi, og stendur við Hafralónsá austan megin, í tungunni milli Kverkár og Hafralónsár.  Konan í Tunguseli hét Guðrún, en nafns bóndans heyrði ég ekki getið.

Sá orðrómur komst nú á kreik í sveitinni að illa væri farið með þurfalinginn í Tunguseli, og barst hann til eyrna hreppsstjórans.  Þóttist hann ekki geta komist hjá að athuga hver sannindi væru á um orðróm þennan, og gerði sér því ferð að Tunguseli.  Þegar Torfa bar þar að garði stóð svo illa á að konan hafði nýlega alið barn, og lá á sæng.  Þegar Torfi frétti hvernig ástatt var með konuna hætti hann við að ganga í bæinn og hafa tal af þeim Tunguselshjónum, en mun hafa náð tali af niðursetningnum.  Enda þótt hreppsstjóri léti ekkert uppi um erindi sitt frétti konan þó um komu hans, og gat sér nærri til um erindi hans.  Er talið að henni hafi orðið svo mikið um, og reiðst ákaflega komu hreppsstjórans, að hún veiktist snögglega og dó.

Eftir lát Guðrúnar í Tunguseli varð þess fljótlega vart að hún ásótti Torfa hreppsstjóra í Hlíð og nánustu ættingja hans.  Var hún upp frá því nefnd Hlíðar-Gunna.  Ásótti hún í byrjun konu Torfa, en þó alveg sérstaklega dóttur hans, svo að henni hélt við sturlun.  Varð henni ekki vært í Hlíð og flúði vestur sveitir, vestur fyrir Skjálfandafljót.  Þegar er hún hafði verið ferjuð vestur yfir Skjálfandafljót féll snögglega af henni álagahamurinn.  Lofaði hún Guð fyrir lausnina, því að nú væri hún laus við Hlíðar-Gunnu.  Dvaldist hún það sem eftir var æfinnar vestan Skjálfandafljóts og kom aldrei til átthaga sinna aftur.

Frá Torfa hreppsstjóra er það að segja að Hlíðar-Gunna ásótti hann allt til æfiloka.  Eitt sinn er Torfi var staddur á Sauðanesi sótti Gunna svo fast að honum að honum lá við óviti og óttuðust menn um líf hans.  Var þá gripið til þess ráðs að senda út í kirkju eftir messuklæðum prests, og þau breidd yfir Torfa.  Létti þá aðsókninni og Torfi hjarnaði við.

Torfi varð gamall maður, og blindur í elli.  Hafði hann þá, er hann var blindur orðinn, þann starfa að berja harðfisk á steini á bæjarhlaðinu í Hlíð og hafði til þess gilda sleggju.  Eitt sinn er að var komið út á hlaðið þar sem að Torfi sat við iðju sina, fundu menn hann dauðrotaðan og örendan.  Hafði sleggjan hrokkið í enni honum og rotað hann.  Voru menn þess fullvissir að þar hefði Hlíðar-Gunna verið að verki.

(Vélritað eftir handriti Árna Vilhjálmssonar – Aagot Árnad.)

Læknaskortur

Læknaskorturinn í útkjálkalæknishéruðunum.

Íslenzkir læknar dýrmæt og eftirsótt útflutningsvara.

Sérhæfing lækna aðalorsökin.

Mikið hefur verið rætt um það undanfarið, hve erfiðlega gengur að fá lækna til þess að þjóna fámennum og afskekktum sveitahéruðum.  Fullsannað er að nóg er til af læknum, og engin læknafæð í heild er fyrirsjáanleg í náinni framtíð.  Þeir sem um þetta hafa skrifað í blöð telja aðalorsökina þá, að læknarnir í útkjálkahéruðunum séu illa launaðir, og að ekki sé nógu vel að þeim búið.  

Um fyrra atriðið er það að segja, að það fær ekki staðist.  Ef frá eru talin allra lökustu héruðin:  Borgarfjörður eystri, Flateyjarhérað, Árneshérað, og ef til vill Reykhólahérað, er fullvíst að læknar hafa mjög góðar tekjur, einnig í hinum smærri héruðum.  Embættislaun þeirra eru 6500 kr. á mánuði og aukatekjur annað eins að minnsta kosti, eða um 13.000 kr. á mánuði.  Launahækkun mundi ekki verða þeim að miklu liði, þareð meginhluti hennar yrði aftur af þeim tekinn í útsvari og skatti.  

Hitt atriðið er miklu þýðingarmeira fyrir læknana, að vel sé að þeim búið heima í héruðunum.  Þeir þurfa að fá rúmgóða bústaði ókeypis, eða fyrir mjög vægt gjald.  Sanngjarnt virðist að ríkið legðiþeim til læknisáhöld öll án endurgjalds, en að þeir bæru ábyrgð á þeim og endurgreiddu þau áhöld sem týndust og gengju úr sér.  Yrði látin fara fram úttekt við læknaskipti.  Þá yrði að sjá um að læknarnir geti fengið hæfilegt sumarfrí sér til hvíldar og hressingar, t.d. 1 mánuð árlega, eða að minnsta kosti 1 mánuð annaðhvort ár.  Áríðandi er að gefa læknum í minnst eftirsóttu héruðunum fulla tryggingu fyrir því, að þeim verði gefinn kostur á betri héruðum eftir nokkurra ára þjónustu.

Af því sem fram hefur komið opinberlega er svo að sjá, sem enginn hafi komið auga á orsökina að þessu ástandi læknaþjónustunnar í dreifbýlinu.  Orsökin er þó nrtæk og fljótfundin.  Hún er beinlínis afleiðing af sérhæfingu læknanna og ákafri sókn til þess að geta talist sérfræðingar .  Viðleitni læknanna í þessa átt er að sjálfsögðu allrar virðingar verð, en hún getur ekki þjónað íslenzkum hagsmunum og staðháttum, nema að vissu marki.  Fólkið í landinu er alltof fátt til þess að allur sá sægur sérfræðinga fái notið sín.  Afleiðingin er því sú, að íslenzkir læknar eru að verða dýrmæt og mjög eftirsótt útflutningsvara.  Það er staðreynd að læknar ná ekki fótfestu í þéttbýlinu, nema þeir geti skreytt sig með sérfræðititli, enda þótt aðalstarf þeirra þar verði það að vasast í almennum praxis, eða læknisþjónustu, rétt eins og hinn ótitlaði læknir.  Þetta veldur svo því, að hinn almenni ótitlaði læknir er smátt og smátt að hverfa í skugga sérfræðinganna.  Honum er orðið óstætt , hversu góður læknir sem hann kann annars að vera.  Í augum fólksins eru sérfræðingarnir einskonar guðir, og það virðist trúa því að þeir sjái sem Óðinn „of heim allan“, og að öll vizka og þekking veraldar sé saman komin í þeirra haus.  Þó fer því víðsfjarri að svo sé, og utan síns sérsviðs munu þeir enga yfirburði hafa fram yfir hinn almenna lækni.

Enn sem fyrr er þjóðinni það höfuðnauðsyn að eiga vel menntaða, dugmikla og vitra lækna til þjónustu í byggðum landsins.  Menn með heilbrigða skysemi, sem láta sér ekki allt í augum vaxa.  Menn sem skilja fólkið ogeru reiðubúnir til þjónustu við menn og málleysingja, af samúð með öllu sem andar og hrærist.  Læknirinn á ekki að vera fjárplógsmaður og ræningi, heldur hámenntaður maður og hinn miskunnsami Samverji, sem hjálpaði hinum særða, setti hann upp á sinn eyk og greiddi fyrir hann í gistihúsinu.

Málið allt er til skammar fyrir læknastéttina og henni ber, sóma síns vegna, að leysa það, ef ekki með öðru þá með því að senda sérfræðinga til þjónustu í útkjálkahéruðunum.  Þeim er það engin vorkunn, og ekki meiri vandi en að elta sínar „skjátur“ um allan Reykjavíkurbæ.

                        Árni Vilhjálmsson fyrrv. héraðslæknir

Afmælisávarp til Guðbjargar Hjartardóttur

Ávarp flutt í sjötugsafmæli frú Guðbjargar Hjartardóttur að Hofi í Vopnafirði.

Þegar jeg í dag kem hingað að Hofi til þess að heilsa upp á frú Guðbjörgu Hjartardóttur á sjötugsafmæli hennar, reikar hugur minn til liðins tíma, og til æskustöðva okkar beggja í hinum breiða dal, sem gengur inn af Þistilfjarðarflóa.  Ótal myndum frá liðnum tíma bregður fyrir.  Í þetta sinn verður þó fyrst fyrir myndin af hinni gáfuðu, dáfríðu og hýrlegu hreppsstjóradóttur á Ytra-Álandi í Þistilfirði.  Enginn, sem sá þessa glæsilegu yngismey gat verið í minsta vafa um það, að þar færi mikill og ágætur kvennkostur.  Mátti með fullri sanngirni heimfæra til hennar lýsingu Njáluhöfundar á Unni Marðardóttur gígju á Velli á Rangárvöllum:  “Hún var væn kona og kurteis og vel at sjer, og þótti sá kostur – þ.e. kvennkostur – bestur á Rangárvöllum.”.

Ekki kann jeg að rekja ætt frá Guðbjargar að langfeðgatali.  Þess gerist heldur engin þörf.  Sjálf ber hún það með sjer, að hún er af góðum stofni og traustum, jafnt til líkama og sálar.  Þar sem jeg er rúmum fimm árum yngri en frú Guðbjörg og langt var á milli æskuheimila okkar, og þau sitt í hvorum hreppi, þá kynntist jeg henni og fólki hennar ekki nema mjög lauslega.  Móður hennar sá jeg aðeins, en Hjört hreppsstjóra sá jeg oft.  Hann var hár maður vexti, grannholda og skarpleitur, talinn vel greindur, og hinn mesti athafnamaður, hagur vel á trje og járn, að þeirra tíma hætti.  Hann var einn helsti fyrirmaður sveitar sinnar og hreppsstjóri svo legni sem jeg man.  Heimilið var mannmargt, börnin mörg og mannvænleg, og komust öll til góðs þroska að því jeg best veit.  Hagur heimilisins mun hafa verið góður, enda þótt ekki hafi verið um ríkidæmi að ræða, enda er Ytra-Áland framúrskarandi góð sauðjörð, og getur fullorðið fje gengið þar fram gjaflaust í íslausum vetrum.  

Inn af Þistilfjarðarflóanum gengur breiður dalur inn í landið.  Að suðaustan takmarkast dalur þessi af Helkunduheiði, hálendishrygg sem gengur innan af miðhálendi landsins út eftir Langanesi allt að Sauðanesi.  En að norðvestan af hálendishrygg, sem gengur frá Rakkanesi, austan Raufarhafnar, allt inn á miðhálendi landsins til Möðrudals.  Frá æskuheimili mínu var þessi fjarlægi fjallahringur frá suðri til norðurs undrafagur til að sjá, enda eru þar mörg og sjerkennileg fjöll, öll þó fremur lág.  Hef jeg ekki annan fjallahring fegurri og hlýlegri litið, nema ef vera skyldi fjallgarðurinn á Reykjanesskaganum sjeður frá Reykjavík.  

Eftir þessum breiða dal falla 5 ár til sjávar, allar nokkuð vatnsmiklar nema Laxá, sem er aðeins smáspræna.  Austast í dalnum fellur Hafralónsá til sjávar.  Skilur hún milli Sauðaneshrepps og Þistilfjarðarhrepps.  Þar næst kemur Laxá, þá Hölkná og Sandá, en vestast Svalbarðsá.  Ytra-Áland stendur út við sjó vestan undir allháum ási milli Hölknár og Sandár.  Inn frá fjarðarbotninum vestan Hafralónsár ganga lágir ásar inn í landið vaxnir lyngi og víði, en á milli ásanna eru flóar og forir.  Úti undir sjó eru ásarnir nokkuð blásnir, en þegar lengra inn í landið kemur verða þeir lægri og fullgrónir, og dalirnir allir ein samanhangandi mjúklega báruð iðandi grassljetta.  Sjeð af fjallsrananum þar sem í ungdæmi mínu stóð bærinn Hafursstaðir er þetta hið mesta samfellda gróðurlendi sem jeg hef augum litið hjer á norðausturkjálka landsins, enda eru hjer hinir ákjósanlegustu sumarhagar fyrir sauðfje.  En hjeraðið veit gegn Dumbshafi og hjer er mikið vetrarríki er frá sjó dregur.  

Þetta fagra hjerað á eins og svo mörg önnur “sína sögu, sigurljóð og raunabögu”.  Eyðibýlin tala sínu máli og sýna best að hjer var áður mikil og þjettsetin byggð.  Á æskuárum mínum var talið að um 30 eyðibýli væru í Þistilfjarðarhreppi.   Síðan hafa nokkur bæst við, svo að líklegt má telja, að þau sjeu nú nær 40.  Það er til þessarar sveitar og heiðarbýla Axarfjarðarheiðar, sem Jón Trausti sótti efnið í Heiðarbýlissögur sínar.  Harðindakaflinn milli 1880 og 1890 varð þessum sveitum þungur í skauti.  Bændurnir á heiðarbýlunum flosnuðu upp og flýðu til Ameríku, eða annara hjeraða, þar sem vænlegra þótti til afkomu.  

Í þessu hjeraði fæddist frú Guðbjörg árið 1889, í lok hins mikla harðæris.  Hún ólst upp með fólki, sem lifað hafði og reynt hin hörðu ár, og hafði mótast af þeirri reynslu og því harðræði, sem byggðarlagið hafði orðið fyrir.  Ekki gat hjá því farið að lífsviðhorf þessa fólks setti sinn svip á lífsviðhorf hinnar gáfuðu ungu stúlku.  Merki þess hafa verið auðsæ í öllu hennar lífi og dagfari.  Hún hefur allt sitt líf staðið föstum fótum í fortíð sinni og vandlega gætt höfuðdyggða liðinna kynslóða:  Iðjusemi, hófsemi, sparsem og nýtni!  Jeg efa ekki að sumu nútíðarfólki finnist að hún hafi iðkað þessar dyggðir um of.  En þá vil jeg bara segja þeim hinum sömu, að þeim sjálfum og þjóðfjelagi okkar mundi vegna betur “ef væru margir slíkir”. 

 Batnandi árferði og bættur hagur einstaklinga gerði hinni ungu stúlku fært að afla sjer menntunar svo sem hugur hennar og hæfileikar buðu.  Hún stundaði nám við Kvennaskólann á Akureyri sem þá var aðalmenntastofnun húsmæðraefna norðanlands.  Hóf síðan nám í hinum nýstofnaða Kennaraskóla Íslands og lauk þar kennaraprófi.  Enn síðar, áður en hún giftist, stundaði hún nám við húsmæðraskóla í Danmörku.  Hún starfaði um allmörg ár sem barnakennari og barst af þeim sökum, eða sem barnakennari, inn í þetta hjerað.  Hjer voru ráðin örlög hennar, er hún giftist hinum unga aðstoðarpresti á Hofi, sjera Jakobi Einarssyni, nú prófasti á Hofi.  Þar hefur hún lifað og starfað og tekið miklu ástfóstri við staðinn og hjeraðið, svo að nú mun enginn staður henni ástfólgnari en Hof.  

Jeg þarf ekki að segja þessa sögu lengur.  Þið þekkið öll prestfrúna á Hofi, sem dvalið hefur og starfað meðal yðar í áratugi. Þið þekkið öll hið ljúfa viðmót hennar, látlausa framkomu, gestrisni hennar og hófsama glaðværð, fróðleik í fornum og nýjum bókmentum, skarpleg tilsvör og leiftrandi gáfur.  Ykkur er einnig kunnugt að hún er hamhleypa til allrar vinnu, og kann vel að skipuleggja störf sín og heimilishald.

Konráð Gíslason sem þekkti Jónas Hallgrímsson allra manna best, sagði af miklum harmi, að Jónasi látnum:  “Við vissum ekki hver hann var, og hvað með honum bjó.”  Þessi sjötuga hefðarkona er nú að yfirgefa þetta hjerað á næstunni.  Látum það ekki á sannast að “við vissum ekki hver hún var og hvað með henni bjó.”

Sjálfur þakka jeg frú Guðbjörgu langa og ánægjulega samveru um 35 ára skeið.  Hjer að Hofi hef jeg oft komið og notið hinnar miklu gestrisni og fágætu alúðar prófastshjónanna, sem ætíð hafa tekið mjer opnum örmum, og með þeim hlýleik og góðvild, sem þeim báðum er svo eiginleg.  Hjer á þessu ágæta heimili hef jeg á liðnum árum átt margar ógleymanlegar ánægjustundir.  Jeg þakka frú Guðbjörgu margháttaða vinsemd í garð konu minnar og barna.  Jeg óska henni til hamingju með afmælisdaginn, óska henni hamingju, friðar og farsældar á ókomnum æfiárum. 

Kveðja til Vopnfirðinga

Árni Vilhjálmsson héraðslæknir á Vopnafirði:

Ræða flutt í kveðjusamsæti er Vopnfirðingar héldu haustið 1959 til heiðurs læknishjónunum og prófastshjónunum, en þeir létu þá báðir af embætti, Árni Vilhjálmsson héraðslæknir og sr. Jakob Einarsson prófastur á Hofi.

Napóleon Bonaparte Frakklandskeisari lagði eitt sinn í veizlu svofellda spurningu fyrir hefðarfrú nokkra:  Hvað haldið þér að sagt verði um mig þegar ég verð farinn?  Frúin hóf upp skjall mikið um ágæti keisarans, og hinn mikla og almenna söknuð, er verða mundi eftir brottför hans.  En Napóleon svaraði stuttur í spuna:  Menn munu segja:  “En sá léttir!”  Napóleon varð sannspár um þetta.  Svo mun og einnig verða hér, er tveir aldraðir embættismenn yfirgefa héraðið, hvað sem líður öllu skjalli og harmatölum um söknuð og sút.  Það er órjúfanlegt lífsins lögmál, að hinu gamla er á eld kastað, en nýtt kemur í staðinn.  Hið unga hefur ætíð byrinn með sér, af því að þess er framtíðin.  Og hvað ættum við, aldraðir menn, svo sem annað að gera en að hverfa á braut?  Á prestinn vill enginn hlýða, og lækninum er ætlað það virðulega hlutskipti, að samþykkja fyrirframgerðar ákvarðanir fólksins, án nokkurs samráðs við hann, um að senda með flughraða, til sérfræðinga, sjúklinga með ómerkilega og auðlæknaða kvilla, og að sjálfsögðu á kostnað hinnar almennu samhjálpar, sjúkrasamlaganna.

Þegar ég nú yfirgef héraðið sem læknir, þá er það með engum söknuði.  Ég er uppgefinn á viðureigninni við hinn nýja Glám:  Óttann, ístöðuleysið, tauga-veiklunina, og sérfræðingagapið.  Í rauninni er það svo, að hinum almenna lækni er að verða óstætt.  Bilið milli nýtízku sjúkrahúsa með háþróaða tækni og fullkomna sjúkraþjónustu, og héraðslæknis í afskekktu héraði, með ófullkomna tækni og fá úrræði, önnur en brjóstvit sitt, er orðið svo breitt, að erfitt verður að brúa.  Í augum fólksins eru sérfræðingarnir eins konar guðir, og það virðist trúa því að þeir sjái sem Óðinn “of heim allan”, og að öll vizka og þekking veraldar sé saman komin í þeirra haus.  Þó fer því víðs fjarri að svo sé, og utan síns sérsviðs munu þeir enga yfirburði hafa fram yfir hinn almenna lækni.  Hin öra þróun læknavísindanna síðustu áratugina hefur leitt til sérhæfingar, og sérnáms á takmörkuðu sviði, í æ ríkari mæli.  Og þessi þróun hefur öll orðið á kostnað hins almenna læknis.  Hann er orðinn vanmetinn, svo að innan tíðar vill enginn taka að sér störf hans.

Ég tel, að þessi þróun sé bæði heimskuleg og hættuleg í jafn fámennu þjóðfélagi sem okkar, þar sem fátt fólk er dreift um stórt landssvæði, erfitt umferðar mikinn hluta ársins.  Enn sem fyrr er þjóðinni það höfuðnauðsyn að eiga vel menntaða, dugmikla og vitra lækna, án allra sérfræðititla, til þjónustu í byggðum landsins.  Menn með heilbrigða skynsemi, sem láta sér ekki allt í augum vaxa.  Menn sem skilja fólkið, og eru reiðubúnir til þjónustu við menn og málleysingja af samúð með öllu sem andar og hrærist.  Sjúkrahúsin eiga að taka að sér allar meiri háttar aðgerðir, en sérfræðingar fágæta sjúkdóma og erfiða viðfangs fyrir hinn almenna lækni.  Fyrir þjóðina er ástæðulaust að kosta lækna til sérnáms, til þess eins að vasast síðan í almennum praxis, þar sem að þeir hafa enga yfirburði fram yfir hinn almenna lækni.

Um störf mín hér í 35 ár er ekki mitt að dæma, heldur fólksins, sem notið hefur þjónustunnar.   Mér hefur alltaf verið það ljóst, að “þekking vor er í molum”, og sú fluga hefur aldrei komið í höfuð mér að ég væri ”ljós heimsins”.  Ég hef reynt að leysa hvern vanda með rólegri yfirvegun, eftir því sem ég hef best vitað og talið skynsamlegt.  Mér mundi ekki koma á óvart það, að störf mín yrðu betur metin er frá líður, og önnur reynsla er fengin.

Á langri læknisæfi eru vonbrigðin mörg, en einnig nokkrir sólskinsblettir.  Eins og svo mörgum öðrum urðu það mér mikil vonbrigði, að hverfa frá hámenningu og starfi í stórum sjúkrahúsum, að starfi í fámennu og afskekktu sveitahéraði.  Það varð mér til hjálpar, að hinn frumstæði maður hefur alltaf verið mér næsta hugstæður.  Ég hef unað mér vel meðal sveitafólks, og hef átt auðvelt með að skilja það, og fylgjast með því, í starfi og striti, gleði og sorg.  Mér finnst ég hefa skilið það líkt og sveitadrengurinn og skáldið Örn Arnarson er svo kvað:

“Þú skilur hve annríkt þeir eiga

til innsveita djúpmiðum frá,

sem nytja vorn harðbýla hólma,

og hafdjúpin grimmlynd og flá.

Þar líturðu landher og flota,

þótt liti ei vopn þeirra blóð.

Sú breiðfylking ein er til bjargar,

hún brauðfæðir íslenzka þjóð.”

Ég sakna liðinnar kynslóðar með sitt æðruleysi, þolgæði og þrautseigju, og hinn innra frið, skapfestu, og miklu sálarró.  Ég sakna hinnar stórmerkilegu fornu, einföldu, óbrotnu og heilnæmu matarmenningar, sem nú er á undanhaldi fyrir ofboðslegu sætabrauðsáti, og öðrum dárskap.  Ég harma hnignun íslenzkrar tungu, tungu Snorra Sturlusonar og Njáluhöfundar, sem nú er verið að kæfa í útlendum slettum, slángorðum, rassbögum, flámæli og þágufallssýki, og bið menn minnast þess að Matthías kvað:

“Tungan geymir í tímans straumi

trú og vonir landsins sona,

dauðastunur og dýpstu raunir,

Darraðarljóð frá elztu þjóðum;

heiptareim og ástarbríma,

örlagahljóm og refsidóma.

Land og stund í lifandi myndum

ljóði vígðum – geymir í sjóði.

Ég hef átt því láni að fagna að geta veitt tilsögn, og komið á framfæri til langskólanáms, nokkrum gáfuðum, námfúsum, og mjög efnilegum ungmennum, sem reynzt hafa síðan nýtir borgarar.  Hafa sum þessara ungmenna síðar veitt mér mjög ánægjulega viðurkenningu fyrir starf mitt.  Hinu ber ekki að gleyma að ég hef bæði beint og óbeint hlotið margskonar viðurkenningu fyrir störf mín hér.  Nefni ég þar til hinn mikla sóma er mér var sýndur með heillaskeytum og gjöfum á 50 ára afmæli mínu, og síðar á 60 ára afmæli.  Fyrir þá viðurkenningu, og þann hlýhug, er ég innilega þakklátur.  En mesta viðurkenningu frá stéttar-bræðrum mínum hef ég þá hlotið, er danskur kvenlæknir, sem vann með mér á sjúkrahúsi í Noregi, og lenti í deilu við mig út af nýkomnum ísl. lækni, mælti til mín að lokum þessum orðum:  De er lykkelig, hr. Vilhjálmsson.  De er den eneste kandidat her paa sygehuset, som ikke bliver kritiseret.  Á íslensku:  Þér eruð heppinn, Árni Vilhjálmsson.  Þér eruð eini kandidatinn á sjúkrahúsinu, sem ekki er gagnrýndur.

Á þeim 40 árum, sem nú eru liðin síðan ég tók embættispróf í læknisfræði hefur orðið gjörbylting á sviði eðlisfræði, efnafræði og læknisfræði.  Margt af því, sem menn þá töldu fjarlægan framtíðardraum hefur rætzt á skömmum tíma.  Þá var talið mögulegt að byggja upp í verksmiðjum ólífræn efna-sambönd.  Hitt datt engum þá í hug, að hægt yrði á sama hátt, að byggja upp hin flóknu lífrænu eggjahvítusambönd.  Nú er það orðið leikur einn.  Engum gat þá heldur til hugar komið, að hægt yrði að framleiða lyf sem eytt gætu banvænum sýklum, án þess að skaða frumur líkamans.  Engum gat þá heldur til hugar komið, að hin hvimleiða mygla og fúki í koppum og kirnum, húmi og skotum byggi yfir þeim undraverða eiginleika, að geta framleitt lyf er grandað gætu skaðræðis sýklum, og útrýmt einum mesta bölvaldi mannkynsins, farsóttunum, að mestu.  Með tilkomu súlfalyfjanna á fjórða tug aldarinnar rættist þessi óskadraumur læknanna, og brotið var blað í sögu læknavísindanna.  Síðan hefur komið á markaðinn mikill fjöldi undraverðra lyfja af þessari gerð, fúka- eða myglulyfjanna, sem allir kannast við.

Mér verður ógleymanlegur sá atburður, er ég gaf sjúklingi í fyrsta sinn súlfatöflur.  Það mun hafa verið um miðjan fjórða tug aldarinnar, að landlæknir sendi héraðslæknum símskeyti, og bað þá veita athygli hinu nýja lungnabólgulyfi frá May & Baker í London, er gekk undir nafninu M&B 693, en það voru súlfapyridintölfur.  Ég brá skjótt við og pantaði töflurnar.  Skömmu eftir að ég hafði fengið þær var ég kallaður til Jóns Sigurjónssonar á Vogum.  Hann var fársjúkur.  Hafði 40° hita, ákaft tak og blóði drifinn uppgang.  Hér var ekki um að villast.  Sjúklingurinn hafði taksótt, hina skaðvænlegu tak-lungnabólgu, er jafnan varð 25% þeirra að bana, er hana fengu.  Ég gaf nú sjúklingnum byrjunarskammt af súlfatöflunum, og sagði fyrir um frekari gjöf.  Næsta dag, eða nákvæmlega 24 stundum síðar, kom ég til sjúklingsins.  Hann var þá alheill og kenndi sér einskis meins.  Hitinn var horfinn, takið horfið, uppgangur enginn, og við hlustun var ekkert að finna í lungum hans.  Undrið mikla hafði skeð.  Hægt var að lækna einn hinn mannskæðasta sjúkdóm og bölvald mannkynsins, með einfaldri lyfjagjöf.

Við lifum á framfaratímum.  Farsóttum hefur að mestu verið útrýmt, og mörgum öðrum skaðræðissjúkdómum.  Húsakynni hafa stórbatnað.  Í stað moldar-bælanna gömlu eru komin ný traust húsakynni með alls konar tækjum til að létta heimilisstörfin.  Vélar hafa tekið af mönnum mesta erfiðið.  Allir hafa nóg til að bíta og brenna, já, jafnvel meira en hollt er.  Því eru þá ekki allir ánægðir og hamingjusamir?  Kristur sagði:  Hvað mundi það gagna manninum þó að hann eignaðist allan heiminn, ef hann biði tjón á sálu sinni.   Það sem að er, er það að “sinnið er allt úr skorðum”.  Hinn vestræni heimur hefur eignazt allan heiminn, og háloftin með, en hann hefur beðið tjón á sálu sinni, er að verða, og þegar orðinn, sálsjúkur.  Þess vegna ærast menn út af einskisverðum hlutum, og kunna ekki að greina á milli þess, sem er hættulegt og hins, sem er einskisvert.

Á laugardag fyrir páska árið 1888 yrkir sér Matthías eitt af sínum stórkvæðum:  “Hafísinn”, en þá voru hafþök fyrir Norðurlandi og ömurlegt um að litast.  Þar segir hann:

“Ertu kominn, landsins forni fjandi?

Fyrstur varstu enn að sandi,

fyrr en sigling, sól og bjargarráð.

Silfurfloti, sendur oss að kvelja!

Situr ei í stafni kerling Helja,

hungurdiskum hendandi yfir gráð?

Svignar Ránar kaldi móðurkviður

knúinn dróma, hræðist voðastríð,

stynur þungt svo engjast iður,

eins og snót við nýja hríð.

Hvar er hafið, hvar er beltið bláa,

bjarta, frjálsa, silfurgljáa?

Ertu horfin, svása svalalind?

Þá er slitið brjóst úr munni barni;

björn og refur snudda tveir á hjarni,

gnaga soltnir sömu beinagrind.

Þá er úti um frið og fagra daga,

frama, dáð og vit og hreystiþrótt

þá er búin .þjóð og saga,

þá er dauði, reginnótt.”

Í lokaerindi kvæðisins talar spekingurinnn og þjóðskáldið til lýðsins, sem er hreldur, þjakaður og kvíðinn, og segir:

“Hel og fár þér finnst á þínum vegi,

fávís maður, vittu, svo er eigi,

haltu fast í Herrans klæðafald!

Lát svo geisa lögmál fjörs og nauða,

lífið hvorki skilur þú né hel:

Trú þú.

Það eru fleiri en séra Matthías, sem telja að lausnin á vandanum sé einmitt trúin.  Auk kirkjunnar manna eru einnig margir vísindamenn, læknar og spekingar nútímans sömu skoðunar.  Nútímavísindin hafa kollvarpað trúnni á efnið.  Margt virðist styðja þá skoðun, að tilveran sé ekki efni heldur andi:  “Hinn mikli eilífi andi, sem í öllu og allsstaðar býr”, og að efnið sé aðeins visst form eða fyrirbæri andans.  Það er engum efa undirorpið að það er rétt, sem séra Matthías segir:  Maðurinn skilur hvorki lífið eða dauðann.

Stjörnufræðingar nútímans gizka á að þvermál alheimsins sé um 70 billjón ljósár, þ. e. að ljósið sé 70 billjónir ára að fara þvert í gegnum alheiminn.  Þegar þess er gætt að hraði ljóssins er 300.000 kílómetrar á sekúndu, er fljótséð, að mannlegur heili fær ekki skynjað eða skilið óravídd tilverunnar.  Mannskepnunni er því ekki annað eftir skilið, en að láta í minni pokann, og hlýða boði séra Matthíasar:  “Hreyk þér eigi, þoldu, stríddu.  Þú ert strá, en stórt er drottins vald.”

Í ákafri leit að veraldargæðum hefur vestrænum menningarþjóðum tekist að vekja upp draug, sem þær fá eigi kveðið niður aftur.  Óttast nú margir að draugur sá megi granda öllu mannkyni, ef einhverjum hálfbrjáluðum stjórn-málamanni skyldi detta það snjallræði í hug, að þeyta kjarnorku- eða vetnissprengju í hausinn á andstæðingunum.  Mundi þá rætast spásögn Völuspár um heimsslit:

“Surtur ferr sunnan

með sviga lævi, – þ. e. eldi –

skín af sverði

sól valtíva. – þ.e. sverð hans skín sólu bjartara

Grjótbjörg gnata, – björgin nötra –

en gífr rata – þ. e. tröllin í hömrunum farast –

troða halir helveg,

en himinn klofnar.”

Ég minnist með söknuði margra mætra samferðamanna og kvenna í héraðinu, sem nú hafa safnast til feðra sinna.  Ég minnist með þakklæti Þórunnar Kristjánsdóttur, sem um langt skeið aðstoðaði mig við vandasöm læknisverk, og annaðist konu mína eftir barnsfæðingar.  Ég færi Sigrúnu Jakobsdóttur beztu þakkir fyrir ágæta liðveizlu, og þjónustu við sængurkonur, þau tvö ár, sem héraðið hefur verið ljósmóðurlaust.  Héraðið á þar mikilhæfa konu, sem vart hefur verið metin að verðleikum.  Ég óska öllum íbúum héraðsins friðar, farsældar, og blessunar, og bið þess, að þeir megi vaxa að vizku og náð hjá Guði og mönnum.

Ég kveð fagurt og blómlegt hérað, og hina blíðu suðvestanátt, hina ljúfu laufvinda Jónasar Hallgrímssonar.  Ég þakka boð ykkar hér í kvöld, og vinsamleg orð í garð okkar hjóna.

Þökk fyrir áheyrnina.