Árni skrifar konu sinni úr Flatey 1923

1923 – Árni Vilhjálmsson

Flatey 24/4 1923

Kæra Aagot mín!

Jæja, þá er maður hingað kominn paa de yderste Skjær, ef svo mætti kalla. 

Einsog jeg gat um í brjefinu um daginn ætlaði jeg að ná í þig til viðtals frá Reykjavík, en var sagt að sambandið væri svo slæmt að ekki væri hægt að tala; þetta hefir auðvitað verið lygi því Jóhann talaði fleirum sinnum heim.  Í Reykjavík var lítið gaman að vera því veðrið var fjarska leiðinlegt, rigning flesta dagana.  Jeg bjó á Hótel Íslandi en borðaði á Hólavelli hjá Páli og var gaman að hitta þá mága Pál og Hilmar að vanda.  

Aðalbjörg lá á Landakoti þegar jeg kom en fór heim á sunnudaginn og fjekk jeg handa henni hestvagn því bílar voru allir á Þingvöllum. Jeg kom oft til hennar síðan og spjölluðum við um margt og mikið.  Hún var búin að fá tennur en ekki pössuðu þær, en vonandi fær hún það lagað.  Aðalbjörg ljet taka myndir af afa og ömmu (Guðm. og Aðalbjörgu) eftir gamalli mynd og fjekk jeg eina þeirra.  Aðalbjörg kemur nú með Esju á morgun og ætla jeg um borð að finna hana.  Jeg kom heim til Smiths 2svar, borðaði þar miðdag etc.  Frúin er hálfbág á geðsmunum, en annars gengur nú vel hjá þeim.  Onkel Þorstein hitti jeg oft en ekki bauð hann mjer heim til sín og fór jeg því ekki þangað.  Ætlaði að heimsækja Snæbjörn en hitti hann ekki heima.  

Loforð landlæknis um Grímsneshjerað var auðvitað útí loftið, mjög vafasamt að Óskar sæki nokkuð um Flatey, að minsta kosti gerir hann það ekki nema alveg tilneyddur vegna heilsunnar.  Illa líst mjer á að vera hjer, ekkert að gera og sjerstaklega ómögulegt að fá hjer nokkra íbúð.  Mjer var holað hjer niður á hóteli og hefi tvö smáherbergi.  Fæði hef jeg hjá Guðmundi Bergsteinss. kaupmanni og líkar það vel; stúlka í næsta húsi tekur til hjá mér og önnur langt í burtu þjónar mjer, en apótek hefi jeg hjá fyrverandi lækni Magnúsi Sæbjörnssyni og er það harla ómerkilegt, alt í skjönneste Uorden, og skíturinn í haugum, en meðul öll gömul, ónýt og af skornum skamti.  Í lengdinni verður slíkt óbærilegt og hefi jeg nú í hyggju að skýra landlækni frá þessu, er hann kemur nú með Esju, og þvertaka að vera hjer lengur en til haustsins, og að flytja hingað búferlum kemur ekki til nokkurra mála nema þeir byggi læknisbústað.  Íbúð sem þeir hafa ætlað lækni er uppi á lofti, nokkrar smákompur, stiginn mannhætta, gólfin bráðónýt og þakið hriplekt; í þá íbúð vil jeg ekki flytja og um aðrar er ekki að ræða. 

Þá er nú að lýsa hjeraðinu.  Flatey er dálítill hólmi hjer lengst útí Breiðafirði, útsýni er hjer fallegt og skemtilegt í góðu veðri, en jafn djöfullega óhuggulegt í vondum veðrum, ekkert afdrep og stormasamt mjög.  Íbúar eyjunnar eru tæp 200, flest krakkar og gamalmenni, því unga fólkið flýr burtu svo fljótt sem það má.  Húsin eru gamlir hjallar 30-40 ára, óþjettir og kaldir og varla líft í þeim um hásumarið.  Annars heyra auk Flateyjar til hjeraðsins nokkrar eyjar bygðar hjer í kring, og sveit á landi sem kallast Múlasveit, er þangað 3-4 tíma ferð á mótorbát, en leiðin er afar hættuleg, eintómar eyjar og sker, svo enginn fer um það nema þaulkunnugirmenn og hafa þeir þó oft farist með öllu á firðinum.  Samtals munu vera í hjeraðinu um 500 manns, en vegna þess að svona hagar til og að þetta er svona dreift er engin praxis, því auðvitað er læknir aldrei sóttur nema í lífsnauðsyn.  Eina ferð hefi jeg farið til lands og fjekk þá allra bezta veður, en vei þeim sem þarf að leggja hjer út um hávetur í náttmyrkri og stormi.  „Hjer er ei neitt sem helst sjer æskja þjóðir og hjarta mannsins unun veita má“, en fólkið er vant einverunni og finnur ekki til þess.  En einsog gefur að skilja er hjer ekki margt til skemtunar og skilyrðið til að geta lifað hjer er að hafa gott hús, en það fyrirfinst ekki.  

Við fórum á sunnudaginn skemtiferð til Hergilseyjar, fengum bezta veður og skemtum okkur ágætlega.  Í Hergilsey býr sonur Snæbjarnar þess er tekinn var einusinni af enskum togara ásamt Guðm. Björnssyni sýslumanni.  Snæbjörn gamli var heljarmenni að burðum, en er nú kominn um sjötugt en þó vel hress og hafði jeg gaman af að spjalla við karlinn.  Fólkið er víst gott hjer og afar gestrisið, gamall og góður stofn en altof einangrað.

Landlæknir gaf mjer í skyn að líklegt væri að jeg fengi Vopnafjörðinn sem veittur verður að sumri, en líklega er það ekki meira að marka en annað.  Jeg frjetti í Reykjavík að Kristján læknir hefði stúdent sjer til aðstoðar í sumar.  Jeg skrifa Kristjáni núna með Esju, en biddu pabba þinn að tala við hann um pláss í vetur og þá með hvaða kjörum, aðalatriðið er þó að geta fengið ódýra íbúð.  Jeg sendi pabba þínum 1000 krónur í póstávísun og vona að þær hafi komið fram.

Aðstaða mín er svo ill hjer að jeg get ekkert læknisverk int af hendi, en einasta bótin er þá að ekkert að gera svo af því hlýst ekki stór skaði.  Það er annars ljóta helv. að hafa annan eins landlækni og Guðm. Björnsson sem lofar og svíkur á víxl.  Skúli Guðjónsson er búinn að fá þingstyrk til einhvers konar Hygiejne náms, á víst sjerstaklega að kynna sjer útrýmingu á lús og kláða, verður sennilega annar Mikkested(?), og frú Smith sagði að hann gengi með landlækninn í maganum.  Þá fær maður líka persónu! sem hæf er í landlæknisstöðuna.  Sigurður Apo kom landveg frá Stokkseyri og fór norður með „Þór“; hann sagði að Kolka liti mjög útundan sjer og væri kominn með alskegg til að auka respektina og væri sífellt að chikanera(?) konu sína og sagðist hann hafa sagt landlækni frá því og hefði hann sagt að hann væri margoft búinn að aðvara Pál sinn um alt slíkt. „Og það koma engin Resept frá honum nema brennivínsreseptin“.  Þórður á Kleppi sagði við mig um Kolka að hann væri „sine fide et religione“, þ.e. að hvorki bæri hann trú nje drengskap í brjósti sjer.  Þórður var búinn að frjetta um afsetningu Kolka og þótti það vel af sjer vikið hjá bæjarstjórn.  Ekkert hefi jeg frjett úr Eyjum síðan annað en það sem Apo sagði mjer.  Lárus hitti jeg í Reykjavík, sömuleiðis Símon og Dóra.  Jeg kom líka heim til Sigurjóns Markússonar, hann lepur dauðann með skel en lifir þó og drekkur víst allmikið.  Guðm. Hannessn hitti jeg og fór hann með mjer um allan bæinn til að sýna mjer byggingar og skipulag bæjarins, hann hugsar ekki um annað núorðið, en ljet illa af afkomu sinni, sagðist ekki geta lifað af laununum, og er það ekki fjarri, og þó á hann húsið skuldlaust, en launin eru skitin 7-8000 krónur og dýrt er að búa í Reykjavík, um það eru allir sammála.

Jeg vona nú að ykkur líði öllum vel og hafið það gott í sumar.  Snorri kann sennilega vel við sig á túninu.  Jeg bið svo kærlega að heilsa pabba þínum og mömmu og krökkunum.

Með kærri kveðju – þinn Árni

Sigríður Davíðsdóttir skrifar Aagot 1920

Bréf Sigríðar Davíðsdóttur til Aagotar

Ytribrekkum 18.febrúar 1920

Kæra dóttir mín.

Mína bestu þökk fyrir bréfið þitt síðast og frá í sumar – bréf þá sem jeg ekki hef verið svo myndarleg að sýna lit á að svara.  Mjer þykir vænt um brjefin þín og finst að þau stytti svo mikið fjarlægðina á milli okkar og jeg kynnast þjer svo í gegnum þau.  Þó jeg hafi hvorki sjeð þig nje fólkið þitt hafa nokkrir orðið til að segja mjer um þig síðan menn vissu að þú varst trúlofuð Árna mínum og allir getið þín að góðu og gleður það mig mikið, því þó allt sje gott, álit, menntun og auður, er þó best að manneskjan sje góð og þar best að búa.

Árni minn hefur skrifað mjer tvisvar í vetur, og heyri jeg að honum hálfleiðist, en þó hefur hann það all gott að sumu.  Veturinn líður fljótt og þá batnar það.  Óli minn skrifar mjer líka og lætur hann mikið vel af kennurunum og er það mikilsvert fyrir piltana og jeg vona að hann og þeir hafi gagn afþví að njóta kenslu hjá góðum mönnum.  Hann hefur sagt mjer að Sverrir bróðir þinn væri þar og hefur hann gaman að kynnast honum.

Mjer líður vel, er við heilsu eptir vonum, jeg er nú á áttunda árinu yfir sextugt og eru nú þessi ár með blíðu og stríðu sem þau hafa haft í för með sjer búin að gjöra mig að hálfgerðum vesaling. Jeg er að yfirvarpinu hjá sjálfri mjer og hefi nóg efni fyrir mig, svo er jeg tíma og tíma hjá börnunum til skipta eptir því sem mjer finst best henta og vilja þau öll bera mig á höndum.  Þau búa hjer þrjú, Sigtryggur á 4 börn, það elsta á fimmta ári og Guðmundur á Syðralóni  6, það elsta á níunda, svo ekki vantar blessuð börn, það er nú allt gott og blessað, þau eru öll heldur efnileg.  Það kemst alt vel af efnalega, en hjer gengur mjög illa að fá nokkra vinnumanneskju og kemur það sjer illa þar sem börnin eru.  

Jeg er nú búin að pára mikið og verður þú að taka viljann fyrir verkið.

Þú mátt vera viss um að mjer þykir vænt um þig ekki síður en hin börn og tengdabörn mín, þó þú sjert fjarlæg.

Vertu blessuð og sæl og líði þjer æfinlega sem best, þín mamma – Sigríður Davíðsdóttir