Sigríður Davíðsdóttir skrifar Aagot 1920

Bréf Sigríðar Davíðsdóttur til Aagotar

Ytribrekkum 18.febrúar 1920

Kæra dóttir mín.

Mína bestu þökk fyrir bréfið þitt síðast og frá í sumar – bréf þá sem jeg ekki hef verið svo myndarleg að sýna lit á að svara.  Mjer þykir vænt um brjefin þín og finst að þau stytti svo mikið fjarlægðina á milli okkar og jeg kynnast þjer svo í gegnum þau.  Þó jeg hafi hvorki sjeð þig nje fólkið þitt hafa nokkrir orðið til að segja mjer um þig síðan menn vissu að þú varst trúlofuð Árna mínum og allir getið þín að góðu og gleður það mig mikið, því þó allt sje gott, álit, menntun og auður, er þó best að manneskjan sje góð og þar best að búa.

Árni minn hefur skrifað mjer tvisvar í vetur, og heyri jeg að honum hálfleiðist, en þó hefur hann það all gott að sumu.  Veturinn líður fljótt og þá batnar það.  Óli minn skrifar mjer líka og lætur hann mikið vel af kennurunum og er það mikilsvert fyrir piltana og jeg vona að hann og þeir hafi gagn afþví að njóta kenslu hjá góðum mönnum.  Hann hefur sagt mjer að Sverrir bróðir þinn væri þar og hefur hann gaman að kynnast honum.

Mjer líður vel, er við heilsu eptir vonum, jeg er nú á áttunda árinu yfir sextugt og eru nú þessi ár með blíðu og stríðu sem þau hafa haft í för með sjer búin að gjöra mig að hálfgerðum vesaling. Jeg er að yfirvarpinu hjá sjálfri mjer og hefi nóg efni fyrir mig, svo er jeg tíma og tíma hjá börnunum til skipta eptir því sem mjer finst best henta og vilja þau öll bera mig á höndum.  Þau búa hjer þrjú, Sigtryggur á 4 börn, það elsta á fimmta ári og Guðmundur á Syðralóni  6, það elsta á níunda, svo ekki vantar blessuð börn, það er nú allt gott og blessað, þau eru öll heldur efnileg.  Það kemst alt vel af efnalega, en hjer gengur mjög illa að fá nokkra vinnumanneskju og kemur það sjer illa þar sem börnin eru.  

Jeg er nú búin að pára mikið og verður þú að taka viljann fyrir verkið.

Þú mátt vera viss um að mjer þykir vænt um þig ekki síður en hin börn og tengdabörn mín, þó þú sjert fjarlæg.

Vertu blessuð og sæl og líði þjer æfinlega sem best, þín mamma – Sigríður Davíðsdóttir